Vetrarhátíð 2022: Ofbirta valin í samkeppni um ljósverk
föstudagur, 14. janúar 2022
Vetrarhátíð 2022: Ofbirta valin í samkeppni um ljósverk
Ofbirta valið í samkeppni um ljósverk á Vetrarhátíð 2022
Reykjavíkurborg í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu fyrir samkeppni um ljóslistaverk á Vetrarhátíð 2022. Niðurstaðan liggur nú fyrir en verkið Ofbirta eftir hönnuðinn og myndlistarkonuna Mörtu Sigríði Róbertsdóttir bar sigur úr býtum og mun umbreyta turni Hallgrímskirkju á hátíðinni sem fer fram dagana 3.-6. febrúar.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna stendur:
Verðlaunatillagan Ofbirta umbreytir turni Hallgrímskirkju í rismikið undirlag lita og hreyfingar. Verkið er litríkt, lífrænt og rétt eins og jólaljósin lífgar það upp á skammdegið um leið og það er húmorísk nálgun á mannlegt eðli og samfélagið. Verkið, samanstendur, af fimm ólíkum myndbrotum sem vísa í jólaljósadýrð okkar yfir hátíðarnar, ljósin sem við skreytum borgina með en líka þau sem náttúran býður okkur upp á. Ofbirta kallar síðan fram nýja myndheima sem hægt er að tengja við götulist, norðurljós og óreiðu lífsins.
Sjá nánar: https://www.honnunarmidstod.is/ha-frettir/ofbirta-valid-i-samkeppni-um-ljosverk-a-vetrarhatid