top of page

Hverfisgallerí: Innra rými - Jeanine Cohen

508A4884.JPG

fimmtudagur, 28. apríl 2022

Hverfisgallerí: Innra rými - Jeanine Cohen

Sýningaropnun laugardaginn 30. apríl 16.00-18.00 - JEANINE COHEN: Innra rými

Næstkomandi laugardag 30. apríl kl 16.00 opnar Jeanine Cohen þriðju einkasýningu sína í Hverfisgallerí sem ber titilinn Innra rými. Cohen er belgískur listamaður sem fæst við lita- og formrannsóknir og með þrívíðum veggverkum sínum, lágmyndum, kannar hún um leið áhrif lita og forma á rýmisupplifanir okkar. Rýmið, sem hún fæst við í list sinni, er ekki síður hið innra rými verksins sjálfs, samsetning á lögum efna og lita er skapa rými innan rýma, innan rýma.

Verk hennar eru sjálfstæðar einingar en eiga jafnframt í samtali hvort við annað í sýningarýminu. Þau eru fáguð yfirlitum, öguð og formin sterk og einföld. Breidd litapallettu hennar nær frá ómeðhöndluðum viðnum yfir í frumliti og neón. Litirnir endurkastast af hvítum veggjunum og innan verksins sjálfs myndast einskonar eigin heimur þar sem ljós- og skuggaspil skapa sín eigin form. Við erum hér minnt á stórfenglega getu augans til að umbreyta geislum ljóssins yfir í merkingarbæra skynjun á umhverfi okkar. Verkin hafa þannig áhrif handan sýningarýmisins og fylgja okkur sem vegvísir inn í daglega lífið og hvernig við getum frekar skerpt á myndrænni skynjun okkar á undrum umhverfisins í kringum okkur.

Jeanine Cohen er fædd árið 1951 í Brussel í Belgíu þar sem hún býr og starfar.
Verk hennar hafa verið sýnd í söfnum og galleríum víða í Evrópu, bæði á einkasýningum og samsýningum svo sem í Frakklandi, Þýskalandi, Portúgal, Póllandi, Belgíu, Sviss, hér á Íslandi auk Ísrael og í Bandaríkjunum. Verk hennar eru í eigu stofnanna, fyrirtækja og einkaaðila víða um heim auk þess sem hún hefur skapað staðbundin verk fyrir ýmis söfn, stofnanir og einkaaðila.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page