top of page

Hugsandi haugur - myndlistarsýning

508A4884.JPG

miðvikudagur, 27. mars 2024

Hugsandi haugur - myndlistarsýning

Nemendur á fyrsta ári í meistaranámi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands opna sýningu á verkum sínum í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal, laugardaginn 23. mars kl. 14:00-16:00.

Sýningin er öllum opin og stendur til 2. apríl. Almennur opnunartími: 10:00-15:00. Enginn aðgangseyrir.
Sýningin er unnin í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur og nemendur í listfræði við Háskóla Íslands.
Myndlistarmennirnir koma frá ýmsum löndum og heita: Emil, Heimir Snær, Laura Wiemers, Linnéa Jonsson, Manuel Strube, Marzieh Amiri, Nicole Desautels, Sandijs Ruluks, Sunniva Allanic, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir og Wanxin Qu. Sýningarstjórar eru Bryn Nóel Francis og Hreinn Hákonarson.

Á sýningaropnun laugardaginn 23. mars, verður myndlistarmaðurinn Wanxin Qu með gjörning kl. 14:30 og 15:30, sem stendur í 10 mínútur í hvort skipti.

Föstudaginn 29. mars verða listamennirnir Emil, Heimir Snær, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir og Wanxin Qu ásamt sýningastjórunum Bryn Nóel Francis og Hreini Hákonarsyni með leiðsögn um sýninguna frá 14:00 til 15:00. Einnig verður Bryn Nóel Francis með leiðsögn um Hugsandi haug á íslensku táknmáli, laugardaginn 30. mars kl. 14:00-15:00.

Verk myndlistarmannanna tengjast með einum eða öðrum hætti garðinum og náttúrunni almennt. Heiti sýningarinnar, Hugsandi haugur, vekur upp ýmsar spurningar.

Í upphafi íslenska vorsins safnast haugur af listamönnum af ýmsum rótum og bakgrunnum saman þar sem einmitt gróa þannig rætur innan landslags Grasagarðsins. Það eru nefnilega margar faldar sögur sem dvelja í lifandi safni sem þrá að vera fundnar. Stökkbreyttar og blendnar verur og plöntur bjóða gestum að heyra raddir sem tala um sannindi og skynsemi. Hvað getur maðurinn fundið annað en sjálfan sig þegar horfst er í augu við samvisku og samkennd?

Hver er merking titilsins Hugsandi haugur? Getur haugur hugsað?

Haugur, hrúga, stafli, bingur, dyngja, hlaði, kös. Þegar orðinu haugur er flett upp í orðabók verður merking titilsins nokkuð ljós. Haugur af listamönnum úr ýmsum áttum kemur saman í lifandi umhverfi og listrænn kraftur þeirra skýtur rótum. Haugur skapar nefnilega líka gerjun og þá verður eitthvað nýtt til, og listaverk þeirra blómgast.

Grasagarður Reykjavíkur er ekki aðeins umvafinn húsum og fólki heldur líka rótum. Hann fagnar rótum listamannanna sem eru fullir af eldmóði og í garðinum kvikna hugmyndir að listaverkum sem tengjast með einum eða öðrum hætti sambandi náttúrunnar og mannsins.

Garðurinn býr yfir öllu sem listamaður þarf: orku, birtu, næringu, sköpun og frjósemi. Garðurinn er viðfang þessara listamanna sem haugast þangað inn og tekur utan um listamennina og hið manngerða inngrip sem þeir skapa. Listamennirnir finna rætur sínar – draga lærdóma af öllum rótum garðsins sem hvíla misdjúpt í moldinni, hógværar, asalausar og skylduræknar við lífið. Þekking og þroski tekur tíma og það vita listamennirnir – eins og rætur garðsins. Haugurinn hugsar, og manneskjan líka, bæði í Grasagarðinum og í eigin garði.

Listamennirnir fara forvitnilegar leiðir í nálgun sinni á náttúruna í hinu manngerða umhverfi Grasagarðsins í Laugardal. Þeir eru sér vel meðvitaðir um að þeir komast aldrei frá hinu mannhverfa sjónarhorni í hugsunum sínum og samskiptum við náttúruna. Þess vegna grípa þeir til margvíslegra ráða til að brúa bilið milli manns og náttúru. Þeir bregða á leik, vekja forvitni, setja hluti í nýtt samband, grafa sig svo að segja ofan í leyndardóma garðsins og uppgötva leiðir til að koma þeim á framfæri í hljóðum, hreyfingum og myndum. Í sýningunni eru garðurinn og náttúran sem lifandi vera í líflegum samskiptum við listamennina sem bera ómælda virðingu fyrir náttúrunni.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page