Hafnarborg: Skapandi listasmiðjur í vetrarfríi í Hafnarfirði
fimmtudagur, 17. febrúar 2022
Hafnarborg: Skapandi listasmiðjur í vetrarfríi í Hafnarfirði
Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins í vetrarfríi. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.
Litróf tilfinninganna
Mánudaginn 21. febrúar kl. 13-15
Smiðjan verður haldin í Apóteki Hafnarborgar þar sem fræðslusýningin Sköpun tilfinninga er uppi. Boðið verður upp á mismunandi aðferðir við gerð myndverka með áherslu á litanotkun og tengingu lita við tilfinningar. Smiðjan hentar börnum á grunnskólaaldri en öll eru velkomin sem vilja og hafa áhuga.
Klippa, líma, lita
Þriðjudaginn 22. febrúar kl. 13-15
Unnið verður með aðferðir kippimynda (e. collage) og listaverkin unnin áfram með teikningu/málun. Innblásturinn kemur frá nýafstaðinni sýningu á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar en hann hafði mikið dálæti á klippimyndaforminu og vann oft með það form í sínum listaverkum. Þá eru klippimyndir frábær leið til að koma listrænum hugmyndum á fast form og möguleikarnir óteljandi.
Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins og geta börn mætt ásamt foreldrum eða forráðamönnum. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins.