Grafíksalurinn; Grónar leiðir/Fertile Paths - Aðalheiður Valgeirsdóttir

fimmtudagur, 25. ágúst 2022
Grafíksalurinn; Grónar leiðir/Fertile Paths - Aðalheiður Valgeirsdóttir
Grónar leiðir/Fertile Paths – 25. ágúst-11. september 2022
Aðalheiður Valgeirsdóttir sýnir í Grafíksalnum, Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17
Fimmtudaginn 25. ágúst 2022 verður opnuð sýning á verkum Aðalheiðar Valgeirsdóttur í Grafíksalnum, Hafnarhúsinu Tryggvagötu 17. Á sýningunni sem ber yfirskriftina Grónar leiðir/Fertile Paths eru ný olíumálverk og vatnslitamyndir. Eins og í fyrri verkum sínum leitar Aðalheiður innblásturs í náttúruna og úrvinnslan rambar á mörkum hins raunverulega og hins huglæga með áherslu á yfirborð, undirlög, áferð lit og birtu.
Í sýningartexta Birtu Guðjónsdóttur segir m.a.:
„Málverk Aðalheiðar Valgeirsdóttur eru myndir af gróandanum í lífinu, dýrðinni, óreiðunni, hinu snertanlega og ósnertanlega, leiðum og leiðartálmum náttúrunnar; þáttum er leggja örlagavegi í lífi okkar. Gróðurinn, litauðgi og mild hreyfingin á myndfletinum lokkar okkur til sín, við svífum inn í myndirnar og öndum inn í hæga hreyfingu plantnanna sem greina má á þeim. Ef til vill erum við á göngu innan um vatnagras sem ættað er samt aðallega úr kvikmyndaminni. Ef til vill upplifum við einskonar draumaútfærslu á flækjum og lausnum í vökulífinu.
Inn í hvaða vídd veraldar erum við komin?
Við göngum inn í ástand, inn í lífræna óreiðu þar sem við þó vitum að ríkja afar heillandi og vel uppbyggð kerfi, sem starfað hafa frá því fyrir okkar tíma og munu starfa eftir okkar dag.
Þessi óreiða, ástandið, teygir sig útfyrir strigann. Striginn felur í sér uppstækkaða mynd af víðfeðmara umhverfi.“
Aðalheiður er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt i samsýningum hér á landi og erlendis. Hún hefur unnið ýmis verkefni á sviði listfræði, sem kennari, greinahöfundur og sýningarstjóri í söfnum og galleríum.
Sýningin verður opin fimmtudaga – sunnudaga kl. 14:00 – 17:00 (og eftir samkomulagi) og henni lýkur 11. september.