Garðatorg: Dúettar - Birgir Rafn Friðriksson BRF
föstudagur, 14. janúar 2022
Garðatorg: Dúettar - Birgir Rafn Friðriksson BRF
Þriðji þáttur: 3. – 30.janúar 2022
Sýningaröð Birgis Rafns Friðrikssonar – BRF á Garðatorgi
3. þáttur af 5. Fundið stað
Dúett eða tvísöngur er tónverk fyrir tvo, tónverk þar sem tveir leika. Í tvísöng parast og afparast raddirnar, leita til og frá hvor annarri á víxl, leita takts, samræmis og merkingar. Hér er stillt fram tveimur verkum sem þannig eru látin „syngja“ dúett, látin bindast hvor annarri í sjónrænum kossi, fyrir þig, að upplifa.
Í þriðja þætti sýningarraðarinnar ber við nýjan tón. Annars vegar gefur að líta eitt verk en hins vegar mörg sem saman mynda þó eina heild, einn kór, einn hóp. Parið sem hér er má því kalla tvennd. Í hópnum ber hvert verk nafn en heildin sem slík stendur fyrir ólíkar hugmyndir um hugtakið „stað“, ekki ólíkt því að velta fyrir sér möguleikum um hvernig stað mann langi að búa á, kostum þeirra og göllum. Í verkinu Garðurinn er aftur á móti öllu því sem áður hefur verið – hefðum, sögunni, líffræðinni, o.s.frv. – tekið með kostum og kynjum og reynt er að móta/teikna sinn garð, sinn stað, einhvern veginn ofan á það allt án þess þó að breiða yfir eða útiloka það.
Þriðji þáttur stendur frá 3.janúar – 31.janúar 2022 og er sá þriðji af 5 þátta sýningarröð BRF sem fram fer hér á Garðatorgi í Garðabæ veturinn 2021-2022. Verkin eru til sölu. Áhugasömum er bent á að hafa samband beint við listamanninn í síma 690 3737. Vinsamlegast snertið ekki verkin.
--------------
Titlar verkanna hægra megin lesið frá vinstri til hægri:
Playful, Fantastic, Natural, Organized,
Dramatic, Aware, Strong, Conscientious,
Hopeful, Happy, Modest, Just Here.
Verkin eru öll:
Olíulitur á striga. 30x40cm. BRF2021
Garðurinn / The Garden.
Olíulitur á striga. 110x110 cm. BRF2021.