top of page

Arna Gná Gunnarsdóttir: Galdrastafir / Attitude and Protect

508A4884.JPG

fimmtudagur, 28. september 2023

Arna Gná Gunnarsdóttir: Galdrastafir / Attitude and Protect

Arna Gná Gunnarsdóttir opnar sýninguna, Galdrastafir / Attitude and Protect, í Gallerí Geneviève Bonieux í París þann 4. október næstkomandi. Sýningin er hluti af Festival De Bijou Contemporain / Hátíð um skartgripahönnun samtímans sem fram fer í París dagana 2. - 29. október 2023.

Arna Gná Gunnarsdóttir máir út mörk hins dulræna og náttúrulega og skapar verk sem virðast göldrótt og framandi en eru um leið nátengd mannslíkamanum í öllum sínum ófullkomleika. Arna Gná vinnur með endurgerð og samsetningu fundinna efna. Hún blandar saman litum og efnum og býr til nýjan veruleika, innblásinn af tengingu líkamans við dulspeki og töfra náttúrunnar. „Wearables“ eða klæðanleg verk er hugtak sem hún notar til að lýsa ákveðnum verkum sem hún skapar, skúlptúrum sem hægt er að bera eða klæðast en geta líka staðið sem sjálfstæð verk.

Með sýningunni Galdrastafir hefur Arna Gná skapað einstakan, sjónrænan heim áhugaverðra verka, allt frá skúlptúrum og ljósmyndum til textílverka og klæðanlegra verka. Verk sem hún skilgreinir sem klæðanleg verk, er hægt að líkja við vendargripi og galdrastafi. Þau geta t.d. verið hálsfestar sem hún leggur fram sem áhrifamikla og grípandi skartgripi og tengjast leit hennar að ósýnilegum og óskiljanlegum kröftum innsæisins. Þeir eru búnir til úr ýmiskonar efnum á borð við silki, brennd kol, ull, gömlum sokkum, notuðu kertavaxi, silfri og glerperlum. Arna Gná tekur í sundur efni og setur þau aftur saman með nál og þráð að vopni: saumar, prjónar, mótar og sameinar í eitt.

Nýlegir skúlptúra Örnu Gnáar líkjast kynlausum verum sem mótast hafa í annarri veröld. Túlka má undarlega mótuðu skúlptúrana sem sprottna úr tilfinningatengingu við innra líf mannsins og líffæri hans. Þeir taka á sig form andlitslausra brúða sem virðast hafa eins konar töfrum þrungna tengingu við angurværa reynslu sem endurómar margbreytilegt efnið í verkunum. Á sýningunni er einnig að finna ljósmyndir sem eru portrait myndir af gjörningum Örnu Gnáar þar sem hún klæðist skúlptúrunum og verður að sínu öðru sjálfi. Svartmáluð um augun með galdramyndir og tákn í andliti klæðist hún skúlptúrum sínum og umbreytist í galdur, seið sem gefur af sér hugrekki og vernd.

Sýningin Galdrastafir er tjáningarríkt samtal með krefjandi verkum sem afhjúpa hið mannlega ástand og kanna óljós mörk milli hins kynlega og óvænta. Viðfangsefni Örnu Gnáar eru birtingarmyndir mannlegrar tilveru og tenging líkamans við galdra náttúrunnar. Hún vinnur með fjölbreytta miðla, allt frá textíl og klæðanlegum verkum til skúlptúra, málverka, innsetninga og ljósmynda.

Ásdís Spanó, sýningarstjóri

Arna Gná Gunnarsdóttir (1974) býr og starfar á Íslandi og í Frakklandi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist 2006 og MA gráðu í listkennslu 2007 frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur einnig stundað nám við Listaháskólann í Bergen og Konunglega listaháskólann í Stokkhólmi.

Árið 2021 tók Arna Gná þátt í sjötta Alþjóðlega textíllistaþríæringnum í Danubiana Meulensteen-listasafninu í Bratislava-Čunovo, og í tíundu Alþjóðlegu míní-listasýningunni „Scythia“ og annarri Alþjóðlegu örtextíllistasýningunni „Scythia“, sem báðar voru haldnar í Ivano-Frankivsk, Úkraínu. Hún hefur einnig tekið þátt í stórum samsýningum í Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyrir, Grafík-galleríi, SÍM-galleríinu og Norræna húsinu í Reykjavík. Hún hefur sýnt verk sín í Frakklandi, Úkraínu, Slóvakíu og Ungverjalandi, t.d. í Pesti Vigadó-galleríinu í Búdapest, Evrópuráðinu í Strassborg og á sýningu í samvinnu við háskólann í Strassborg. Fjallað hefur verið um verk hennar og sýningar í ýmsum tímaritum og dagblöðum, þar á meðal Textile Plus, Arte Morbida, Nýju lífi og Bernina.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page