top of page
< Back

Tinna Guðmundsdóttir

Til formanns

Tinna Guðmundsdóttir

Kæru félagar í SÍM

Ég, Tinna Guðmundsdóttir, hef ákveðið að gefa kost á mér til formanns SÍM á komandi kjörtímabili. Ég þekki starfsemi samtakanna mjög vel og finnst spennandi áskorun að leiða SÍM inn í nýja tíma. Það hafa verið miklar vendingar í landslaginu undanfarið og mikilvægt að grípa þau tækifæri sem eru framundan.
Þau verkefni sem ég tel mjög aðkallandi og mikilvægt að sinna af staðfestu eru: fylgja eftir aðgerðum nýrrar myndlistarstefnu stjórnvalda, tryggja að endurskoðun listamannalauna gangi eftir, efla og viðhalda Við borgum listamönnum framtakinu, tryggja langtímalausnir á vinnustofum félagsmanna, styrkja umgjörðina í kringum gestavinnustofustarfsemina, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og hafa frumkvæði að virku samtali við hið opinbera.

Ég hef starfað í myndlistargeiranum síðustu 20 ár. Umfangsmestu verkefnin sem ég hef komið að eru m.a. vinna sem forstöðumaður Skaftfells - myndlistarmiðstöð Austurlands frá 2012-2018, framleiða heimildarmyndina Blindrahundur sem kom út 2017, ritstýra yfirlitsritinu Nýlistasafnið 1978-2008 sem kom út 2010 og stýra Sequences Real-Time Art Festival árið 2008. Eins hef ég setið í stjórn Nýlistasafnsins, stjórn Tækniminjasafnsins, ferða- og menningarmálanefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar og innkaupanefnd Listasafns Íslands. Um þessar mundir starfa ég sem verkefnastjóri hjá Myndlistarmiðstöð. Hvað varðar menntun hef ég lokið BA gráðu úr fjöltæknideild LHÍ árið 2002 og kennsluréttindadiplomu úr LHÍ árið 2005. Ennfremur hef ég lokið MA gráðu í menningarstjórnum frá Háskólanum á Bifröst árið 2008 og MA gráðu í myndlist úr Listaháskóla Íslands árið 2022.

Að öllu samanlögðu hef ég öðlast mikla innsýn og þekkingu á umhverfi listamanna, stjórnsýslu og starfsemi menningarstofnana á landsvísu. Ég tel að margra ára reynsla mín í rekstri, stefnumótun og verkefnastjórnun munu nýtast SÍM mjög vel til bæta starfsumhverfi myndlistarmanna heilt yfir. Það eru margsskonar áskoranir og breytingar í gangi um þessar mundir. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að búa til gott teymi innan SÍM til að lóðsa sig í gegnum kerfið, taka samtalið, einblína á mikilvægustu málefnin og ná fram sem bestu mögulegu tækifærum fyrir fagið okkar.

Samhliða formennsku mun ég halda áfram að sinna listinni. Undirstaðan í listsköpun minni eru kerfisvillur og tilvistarkreppur sem skapast út frá samlífi manns og náttúru. Í nýjustu verkum mínum hef ég leitast við að hrista upp í viðteknum félagsfræðikenningum og endurskoða samband mannsins við hlutheiminn. Með því að vefa saman þessa þræði leitast ég við að myndgera ósýnilegt valdastrúktúra og afmá skilgreiningar milli hlutverka og stétta. Ég hef sýnt víðsvegar síðustu árin m.a. í Nýlistasafninu, Kling & Bang, Skaftfelli og Verksmiðjunni á Hjalteyri. Vefsíður: www.tinnagudmunds.is & www.seeingeyedog.is/

Ég hlakka til að vinna að því með stjórn og starfsmönnum við það verðuga verkefni að lyfta starfsemi SÍM upp í annað veldi og efla faglegar forsendur fyrir starfandi listamenn.

bottom of page