Anna Rún Tryggvadóttir
Til stjórnar
Ég býð mig fram í stjórn SÍM.
SÍM er magnari okkar myndlistarmanna til að berjast fyrir og láta bera á hagsmunum okkar á breiðum grunni. SÍM er milliliður okkar við stjórnvöld og samfélagið í víðara skilningi. Ég hef starfað við myndlist í um 15 ár, og þekki vel starfsumhverfið. Ég lærði við LHÍ, HFBK Hamburg og Concordia háskóla í Montreal Kanada. Ég hef lagt áherslu á að vera með stúdíó praxis og rekið vinnustofu á Íslandi og í Berlín og verið með sýningar hérlendis og erlendis.
Ég býð mig fram í stjórn SÍM þar sem ég tel að reynsla mín, þekking og ástríða fyrir myndlist í víðu samhengi geti stuðlað að bættu starfsumhverfi listamanna á Íslandi.
Þau verkefni sem ég tel mikilvægt að SÍM beiti sér fyrir snúa að því að tryggja myndlistarmönnum eins gott starfsumhverfi og kostur er á.
Að mínu mati felur það í sér eftirfarandi:
- Að tryggja langtímalausnir á vinnustofum félagsmanna sem og á gestavinnustofum
-Að berjast fyrir sanngjörnu leiguverði og meiri fjölda vinnustofa.
-Að vinna að stöðugri endurskoðun listamannalauna og stunda öflugt aðhald að stjórnvöldum til að tryggja að stefnumótun um starfsumhverfi, svo sem starfslaun, skatta og tolla umhverfi endurspegli þarfir starfandi listamanna.
-Að viðhalda “Við borgum listamönnum” framtakinu.
-Að SÍM sé málsvari allra félagsmanna sinna, og hlúi að þeim fjölbreytileika sem finnst í íslenskri myndlistarsenu.
Einnig finnst mér mikilvægt að efla virðingu og auka skilning á starfi myndlistarmanna í íslensku samfélagi. Myndlistarmenn lifa flestir á lágmarkslaunum eða vinna margfalda vinnu. Það er lítill skilningur og lítil vitneskja um líf og kjör þessa hóps. Hér starfar öflugur, breiður og fjölmennur hópur listamanna að frumsköpun á víðum grunni sem íslensk menning og íslenskur efnahagur nærist og þrífst á. Listin eru ein af öndvegissúlum samfélagsins og mikilvægt að SÍM nýti áhrifamátt sinn til að starfsframlag myndlistarmanna sé þekkt og virt í almennu samfélagslegu samhengi.