top of page

Listasafn Reykjavíkur: Sprengikraftur mynda - Erró

508A4884.JPG

miðvikudagur, 6. apríl 2022

Listasafn Reykjavíkur: Sprengikraftur mynda - Erró

Sýningaropnun – Erró: Sprengikraftur mynda
Laugardag 9. apríl kl. 14.00 í Hafnarhúsi
Viðamikil yfirlitssýning á verkum Errós, Sprengikraftur mynda, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardag 9. apríl kl. 14.00. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnar sýninguna og veitir viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Listasafn Reykjavíkur gefur út veglega sýningarskrá í tilefni sýningarinnar.

Erró er einn fárra íslenskra listamanna sem náð hafa fótfestu í heimi alþjóðlegrar myndlistar. Sprengikraftur mynda er heildstæð úttekt á hinum litríka feril listamannsins sem hefur fengist við ýmsa miðla myndlistarinnar. Þar má finna allt frá gjörningum, vídeólist, grafík, fjölfeldi og klippimyndum, til stórra verka í almannarými og málverka á öllum skala, sem hafa unnið honum verðugan sess í evrópskri listasögu. Hér er á ferðinni umfangsmesta sýning sem sett hefur verið upp á verkum listamannsins hérlendis og tekur hún yfir allt Hafnarhúsið.

Listamaðurinn Erró, fæddur Guðmundur Guðmundsson árið 1932 í Ólafsvík á Vesturlandi, var í fararbroddi evrópsku framúrstefnunnar á sjöunda áratugnum. Í listasögu þessa tímabils er nafn hans ekki aðeins tengt endurnýjun fígúratífs myndmáls, vegna uppfinningar hans á frásagnarmálverkum sem byggja á samklippi, heldur einnig við hræringar sem á sínum tíma voru kenndar við uppákomur og tilraunakvikmyndir. Þótt verk hans séu réttilega gjarnan tengd við súrrealisma, fígúratífa frásögn eða popplist, er ekki hægt að spyrða þau við eina þeirra umfram aðra.

Sýningin Sprengikraftur mynda endurspeglar glæsilegan feril Errós og byggir að mestu á listaverkagjöf listamannsins til Reykjavíkurborgar. Árið 1989 tók borgin við um 2000 verkum eftir listamanninn, auk skjala og annarra gagna. Listaverkasafnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin og telur nú um 4000 verk. Errósafninu var fundinn staður í Hafnarhúsi og var gjöfin grunnur þess að Listasafn Reykjavíkur hóf starfsemi í húsinu.

Sýningarstjórar eru Danielle Kvaran, verkefnastjóri Erró safns Listasafns Reykjavíkur og Gunnar B. Kvaran. Um sýningarhönnun sér Axel Hallkell Jóhannesson. Sýningin telur meira en 300 listaverk af ýmsum gerðum, sem og ljósmyndir og annan fróðleik um listamanninn. Í sýningarskránna rita sýningarstjórarnir Gunnar og Danielle um ólík tímabil á ferli listamannsins, en einnig er að finna texta og viðtöl eftir Bjarna Hinriksson, Jean-Max Colard, Alain Jouffroy, Jean-Jacques Lebel, Hans Ulrich Obrist og Anne Tronche. Sýningin fer til Danmerkur í apríl á næsta ári og verður sett upp í ARos safninu í Árósum.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page