top of page

Kathy Butterly / Eggert Pétursson 19.01.23 - 04.03.23

508A4884.JPG

fimmtudagur, 19. janúar 2023

Kathy Butterly / Eggert Pétursson 19.01.23 - 04.03.23

i8 býður ykkur velkomin á opnun sýningar Eggerts Péturssonar og bandaríska skúlptúristans Kathy Butterly. Sýningin opnar fimmtudaginn 19. janúar frá 17 - 19 og mun standa yfir til 4. mars 2023.

Í heildarverki beggja listamanna má finna líkindi í áratuga langri skuldbindingu við handverkið, án þess að þau missi sjónar á persónulegri tjáningu viðfangsins. Sýn Kathy og Eggerts einkennist af samtali við efni og aðferð og næmni þeirra beggja fyrir smáatriðum leiðir af sér kraftmikil, grípandi verk sem bjóða áhorfandanum að hugleiða þolmörk lita og forma í gegnum færni listamannsins; Kathy reynir á takmörk og getu skúlptúrsins rétt eins og Eggert reynir á málverkið.

Ferli og tími eru mikilvægir þættir í verkum beggja listamanna, og taka þau hvort um sig mánuði, jafnvel ár í sköpun verka sinna. Kathy brennir keramík verk sín allt að 40 sinnum til að ná fram réttri samsetningu lita og forms; Eggert glæðir strigann íslenskri flóru af kostgæfni og elju. Áhugi þeirra á eiginleikum efnis og ásækinn áþreifanleiki listaverkanna býr til rúm fyrir áhugavert samspil skúlptúrs og málverks tveggja ólíkra heima. Listamennirnir vinna báðir innan sjálfskipaðra ramma - Kathy eftir formi og stærð, Eggert eftir efnivið - sem í höndum þeirra virðist ótæmandi uppspretta nýrrar nálgunar.

Skúlptúrar Kathy samanstanda af tveimur formum: Mót af fjöldaframleiddu fiskabúri stendur ofan á ferningi. Hún hellir postulínsleir í gifsmót af fiskabúrinu og vinnur síðan með óbrenndan leirinn í höndunum. Verkið er í framhaldinu gljáð og brennt endurtekið undir vökulu auga listamannsins svo mánuðum skiptir þar til endapunkti er náð. Ferningarnir, sem Kathy nefnir stöpla, eru órjúfanlegur hluti verka hennar og jafn veigamiklir og formið sem þeir bera.

Íslensk flóra er viðfangsefni Eggerts. Í gegnum ólík sjónarhorn af landslagi og náttúru Íslands tekst honum að draga fram nýjar, allt að því óhlutbundnar hliðar inn á sjónarsvið áhorfandans. Frá upphafi hefur Eggert verið trúr umfjöllunarefni sínu og áratuga löng hollusta hans við flóru Íslands hefur gefið af sér undraverða tækni við að fanga hina hverfandi og síbreytilegu orku plönturíkisins.


Kathy Butterly (f. 1963, Bandaríkjunum) býr og starfar í New York, Bandaríkjunum. Hún hefur nýlega sýnt hjá Contemporary Art Museum St. Louis, MO; the Portland Museum of Art, ME, og The Jan Shrem og Maria Manetti Shrem Museum of Art í UC Davis, CA. Verk Kathy hafa verið á samsýningum hjá Metropolitan Museum of Art, NY, The Crystal Bridges Museum of American Art, AK, og the Anderson Collection við Stanford háskólann, CA.

Eggert Pétursson (f. 1956, Íslandi) býr og starfar í Reykjavík. Hann lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Reykjavík, og í framhaldi við Jan van Eyck Academie, Maastricht. Hann hefur sýnt í Nýlistasafninu, Listasafni Reykjavíkur, Museum Fodor í Amsterdam og Pori Art Museum í Pori, Finnlandi. Eggert hlaut annað sæti í Carnegie Art Award 2006 (Oslo, Stokkhólm, Helsinki, Reykjavík, Kaupmannahöfn og Nice).


Frekari upplýsingar um verk Kathy Butterly og Eggerts Péturssonar veitir Dorothea Olesen: dorothea@i8.is.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn

SAMBAND
ÍSLENSKRA
MYNDLISTARMANNA

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Ísland

Skrifstofan er opin virka daga frá kl 12 -16

Sími/ Tel.: +354 551 1346
Email: sim@sim.is

Kt. 551283-0709

Samfélagsmiðlar

  • Facebook
  • Instagram
logo_white_edited.png

© Samband íslenskra myndlistarmanna, 2024

bottom of page