top of page

Jólakveðja frá SÍM 2021

508A4884.JPG

föstudagur, 17. desember 2021

Jólakveðja frá SÍM 2021

Kæru félagsmenn SÍM

Það sem af er af árinu hefur einkennst af erfiðleikum sem hafa m.a. gert okkur erfitt með að hittast vegna COVID 19. Fyrir slembilukku tókst okkur að halda TORG Listamessu í október 2021, þessi viðburður slapp milli covid tíma þar sem mátti koma nánast óhindrað á viðburði. Um það bil 70 félagsmenn SÍM sýndu og seldu verk sín á messunni. Sala myndlistarverka á messunni var um 25 miljónir og kæmi mér ekki á óvart að eftirbylgja í sölu verði um 5 miljónir en það hefur verið reynsla okkar að langtíma tengsl myndast milli listamannana og kaupenda.

Kaffistofa Loftsins á Korpúlfsstöðum var opnuð á sama tíma og TORGIÐ og mældist vel fyrir og gekk mjög vel. Listamönnunum þótti gaman að hittast í kaffi og spjalla auk þess að geta sest niður með vinum og ættingjum. Kaffistofan er skemmtileg viðbót við starfsemi Korpúlfsstaða, en Torgið stóð yfir tvær helgar auk opnunar á föstudegi, einnig var opið á löngum fimmtudegi.
Mánuður Myndlistar var haldinn í október að vanda en hluti af mánuði myndlistar snýr að heimsóknum listamanna í grunn- og framhaldsskóla. Margfalt fleiri skólar sóttu um þetta árið en komust að en þar spilaði þröng fjárhagsstaða stærstan þátt í fækkun heimsókna milli ára. Sjö listamenn heimsóttu 16 skóla víðsvegar um landið að þessu sinni og gengu þessar heimsóknir gríðarlega vel og bæði kennarar og nemendur afar ánægðir með framtakið.

Sem hluti af Mánuði myndlistar þetta árið tók SÍM þátt í Hlaðvarpi BÍL með viðtölum við listamenn. Auglýst var eftir viðmælendum meðal félagsmanna SÍM og úr varð að rætt var við þrjá listamenn sem m.a. tóku þátt í skólakynningum og Torgi listamessu. Þættirnir eru enn aðgengilegir á Spotify. https://open.spotify.com/episode/21jieY3xddozkvN3HS9qff

Sýningarsalurinn Hlöðuloftið er vel nýttur til einka og samsýninga, salurinn er nánast fullbókaður til ársins 2025, en á þessu ári hafa verið 7 einkasýningar auk TORGSINS sem og þónokkrir einkaviðburðir, auglýsingamyndatökur og tónlistarupptökur. Verið er að auka samstarf við Grafarvogssamtökin og áhugi er á að efla aðgengi íbúana að Korpúlfsstöðum.
Salurinn í Hafnarstræti, SIM Gallery, hefur verið með yfir 15 sýningar á árinu. Salurinn er nú aðeins nýttur undir einkasýningar félagsmanna SÍM. Salurinn er auglýstur til útleigu í desember ár hvert og leigður út mánuð í senn.

Artótekið hefur vissulega gert sitt gagn þar hefur útlán verka aukist til muna.
Í undirbúningi eru tvær samkeppnir um útilistaverk á vegum opinberra aðila. Báðar verða þær lokaðar samkeppnir með lokuðu forvali.

Ásgerður og Martynas hönnuðu nýjan bækling um starfsemina á Korpúlfsstöðum með myndum textum og dagatali fyrir Hlöðuloftið. Bæklingurinn var gerður í kjölfar heimsóknar Dags B. Eggerssonar, Hjálmars Sveinsonar og annara tengda menningarmálum Reykjavíkurborgar. Bæklingurinn var sendur til þeirra fulltrúa borgarinnar sem heimsóttu Korpúlfsstaði.

Ný heimasíða hefur verið send í loftið og er í stöðugri þróunn. Heimasíðan var hönnuð, ásamt heimasíðu SIM Residency, af þýska listamanninum Marcel Tarelkin. Síðan er einn liður í því að færa SÍM nær þörfum nútíma samfélags og hefur öllum félagsmönnum þegar verið sendur aðgangur inn á innra svæði síðunnar en þar er m.a. hægt að sækja um vinnustofur og Mugg. Fleiri breytingar eru áætlaðar á starfssemi SÍM á næstunni, en í stað hinna hefðbundnu félagsskírteina sem félagsmenn hafa fengið send í pósti undanfarin ár, mun SÍM taka í notkun rafræn skírteini sem verða send rafrænt í síma félagsmanna er þeir hafa greitt sín félagsgjöld.

Aðsókn að gestavinnustofu prógrammi SÍM – Residency hefur verið mikil á árinu, þrátt fyrir Covid og hafa 114 listamenn af 34 þjóðernum tekið þátt í gestavinnustofu prógramminu í ár. Listamennirnir dvelja í einn til þrjá mánuði hver og taka þátt í listamanaspjall og opnum vinnustofusýningum.

Háþróuð 3D myndavél frá Matterport var keypt í sumar og stendur félagsmönnum til boða að láta taka myndir á hana t.d. af sýningum en Martynas sér alfarið um myndatökurnar og úrvinnsluna gegn vægri greiðslu. TORG Listamessa var til að mynda tekin upp á 3D ásamt nokkrum sýningum sem hafa verið bæði í Hafnarstræti og á Korpúlfsstöðum og eru þessar myndir aðgengilegar á heimasíðu SÍM.
Nýverið fjárfesti SÍM einnig í gríðarstóru sýningartjaldi og hágæða skjávarpa sem nýta má á ýmsan hátt m.a. fyrir fundir og fyrirlestra.

Öll níu vinnustofuhúsin eru fullsetin og langir biðlistar eftir þeim vinnustofum sem losna. Því miður missum við vinnustofurnar í Lyngási á næsta ári, en við erum stöðugt að leita af nýjum húsum og sjáum til hvort við finnum eitthvað í staðinn fyrir Lyngásinn.
Stjórnarstörfin hafa verið marvísleg og verður nánar fjallað um þau í ársskýrslunni.

Stjórn SÍM og starfsfólk óskar öllum félagsmönnum
Gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári




Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page