top of page

Hafnarborg: Snert á landslagi – 66°05’35.2″N 18°49’34.1″W - Tinna Gunnarsdóttir

508A4884.JPG

föstudagur, 25. febrúar 2022

Hafnarborg: Snert á landslagi – 66°05’35.2″N 18°49’34.1″W - Tinna Gunnarsdóttir

Laugardaginn 26. febrúar kl. 14 verður sýning Tinnu Gunnarsdóttur, Snert á landslagi – 66°05’35.2″N 18°49’34.1″W, opnuð í aðalsal Hafnarborgar, en sýningin er jafnframt hluti af HönnunarMars 2022. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar. Þá verður ávarp forstöðumanns kl. 15.
Á sýningunni verður sjónum beint að íslensku landslagi með það að markmiði að íhuga og endurskoða tengsl okkar mannanna við jörðina. Mannöldin er nýtt hugtak sem notað er um það jarðsögulega tímabil sem við nú búum við, þar sem áhrif mannkyns á jörðina eru orðin svo afgerandi að þau má skilgreina sem jarðfræðilegt afl. Afleiðingar þess má m.a. greina í hlýnun jarðar, súrnun sjávar, sjötta útrýmingarskeiði dýrategunda og svo mætti lengi telja. Það er mikilvægt að bregðast við þessu risavaxna verkefni frá ólíkum áttum, með ólíkum aðferðum, tækjum og tólum, frá vísindum til lista og frá einstaklingum til samfélaga. Þegar kemur að sjálfbærri þróun þurfum við fjölda svara frekar en að leita að hinu eina rétta svari.
Snert á landslagi er vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu Gunnarsdóttur, þar sem áhersla er lögð á að virkja fagurferðilega upplifun í landslagi sem afl til umbóta. Hugtökin landslag og fagurfræði eru mun dýpri og yfirgripsmeiri en þau virðast við fyrstu sýn. Þau fjalla ekki einungis um ásýnd heldur raunverulega snertingu okkar við heiminn, þar sem maður og landslag mætast og hafa áhrif hvort á annað. Þungamiðja verkefnisins er áralöng tilviksrannsókn í Héðinsfirði á norðanverðum Tröllaskaga, þar sem Tinna beitir fjölbreyttum aðferðum hönnunar í þeim tilgangi að skapa snertifleti þar sem þessum tengslum er veitt sérstök athygli.
Tinna Gunnarsdóttir er fædd á Íslandi árið 1968. Hún nam hönnun í Englandi, Þýskalandi og á Ítalíu og hefur rekið eigin hönnunarstúdíó í Reykjavík frá 1993. Verk hennar hafa verið sýnd víða, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi. Um þessar mundir gegnir hún stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands. Tinna nýtir hönnunarrannsóknir og nytjahluti hversdagsins til að skoða umhverfi sitt, hvort sem það á við um einkarými heimilisins eða náttúrulegt samhengi. Hún setur efni og tækni í óvæntar aðstæður og skapar þannig ný sjónarhorn, útvíkkaða upplifun, kynlegt samhengi. Íslenskt landslag hefur haft mikil áhrif á meðvitund hennar og rýmisskilning, sem hún svo miðlar í gegnum efnislæga hluti.
Verið öll velkomin – aðgangur ókeypis.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn

SAMBAND
ÍSLENSKRA
MYNDLISTARMANNA

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Ísland

Skrifstofan er opin virka daga frá kl 12 -16

Sími/ Tel.: +354 551 1346
Email: sim@sim.is

Kt. 551283-0709

Samfélagsmiðlar

  • Facebook
  • Instagram
logo_white_edited.png

© Samband íslenskra myndlistarmanna, 2024

bottom of page