Gerðarsafn á Hönnunarmars: Snúningur - Hanna Dís Whitehead
þriðjudagur, 3. maí 2022
Gerðarsafn á Hönnunarmars: Snúningur - Hanna Dís Whitehead
Sýningaropnun | Snúningur
Hanna Dís Whitehead sýnir í Gerðarsafni á HönnunarMars
05.05.2022 kl. 16:00 Gerðarsafn Listasafn Kópavogs
Fimmtudaginn 5. maí opnar einkasýning Hönnu Dísar Whitehead, Snúningur, í Gerðarsafni Listasafni Kópavogs frá kl. 16-18. Öll eru hjartanlega velkomin að vera viðstödd opnunina.
Hanna Dís Whitehead tekur annan snúning á verkum síðustu tíu ára eða frá því að hún útskrifaðist úr Hönnunarakademíunni í Eindhoven árið 2011 og blandar hún saman óvæntum efnivið, litum, formum og sögu á nýjan hátt. Á sýningunni verða gerðar tilraunir til að búa til húsgögn úr því sem áður var ílát, blanda saman nýjum aðferðum á fyrri hugmyndir og fá sömu sjónrænu efnistilfinningu út úr ólíkum efnivið.
“Oftast þegar ég er að klára síðasta verkið fyrir sýningu dettur mér næsta hugmynd í hug, eða í samtali við gesti koma nýjar útfærslur upp í hugann. Ásíðustu árum hef ég líka lært margt nýtt og þróað aðferðir sem gjörbreyttu sýn minni á fyrri verkefni. Það var því eitthvað spennandi við það að líta aðeins tilbaka.” – Hanna Dís Whitehead.
Leiðsögn listamanna | Bergur Ebbi, Páll Haukur og Fritz Hendrik IV
05.05.2022 kl. 18.15 Gerðarsafn Listasafn Kópavogs
Fimmtudaginn 5. maí verða Bergur Ebbi rithöfundur, Páll Haukur og Fritz Hendrik IV myndlistarmenn, með leiðsögn og listamannaspjall í tengslum við verk þeirra á sýningunni Stöðufundur í Gerðarsafni.
Stöðufundur er verkefni sem veitir innsýn inn í hugarheim og væntingar tíu listamanna sem eru í fararbroddi sinnar kynslóðar. Listamennirnir samanstanda af fimm myndlistarmönnum og fimm rithöfundum sem eru ólíkir innbyrðis en eiga það sameiginlegt að hafa í verkum sínum fjallað um samtímann og stöðu ungs fólks í nútímasamfélagi. Stöðufundur er þó hvorki samtímaspegill né sögulegt yfirlit heldur kannski frekar eins og GIF-skrá sem spilast aftur og aftur og aftur til eilífðarnóns.
Listsmiðja fyrir börn með Hönnu Dís Whitehead
07.05.2022 kl. 13-15
Hanna Dís Whitehead býður upp á skemmtilega listsmiðju fyrir börn þar sem unnið verður að munsturgerð. Smiðjan hentar öllum börnum frá 5 ára aldri og fjölskyldum þeirra.
Þátttaka er ókeypis og öll eru velkomin!
Sýningarleiðsögn og listsmiðja fyrir fullorðna
08.05.2022 kl. 14
Hanna Dís Whitehead verður með leiðsögn um sýninguna Snúningur í Gerðarsafni og fjallar um vinnuferli sitt og tildrög þessarar sýningar. Leiðsögninni lýkur með listsmiðju fyrir fullorðna þar sem þátttakendum gefst tækifæri að grípa í allskonar efnivið! Öll eru hjartanlega velkomin.