top of page

Gallerí Undirgöng: Matador - Einar Garibaldi - listamannaspjall og sýningarlok

508A4884.JPG

föstudagur, 11. mars 2022

Gallerí Undirgöng: Matador - Einar Garibaldi - listamannaspjall og sýningarlok

Matador - listamannaspjall og sýningarlok

Laugardaginn 12. mars klukkan 16.00 verður Einar Garibaldi Eiríksson
með leiðsögn um sýningu sína „Matador“ í Gallerí Undirgöng, Hverfisgötu 76.

Sýning hans er málverkaröð/innsetning sem unnin er sérstaklega fyrir sýningarrýmið í Gallerí Undirgöngum með nánasta umhverfi þess á Hverfisgötunni og í Skuggahverfinu í huga. Titill verksins vísar í borðspilið Matador þar sem þátttakendur takast á um kaup og sölu á landspildum og fasteignum með það að markmiði að græða sem mest á viðskiptunum og keyra andstæðinga sína í gjaldþrot. Verk hans endurspeglar á margan hátt þær margslungnu hagfræðibrellur og fjármálaflækjur sem við upplifum í samtíma okkar, þar sem háreistir byggingakranar og gapandi húsgrunnar minna okkur á þátt braskara og eignarhaldsfélaga í mótun borgarmyndarinnar hverju sinni.

Einar Garibaldi er myndlistarmaður og sýningarstjóri sem á að baki fjölda sýninga á verkum sínum heima og erlendis, ásamt þvi að hafa starfað sem prófessor við Listaháskóla Íslands og sem deildarstjóri við Sjónlistadeild Myndlistarskólans í Reykjavík. List hans á oftar en ekki í beinu samtali við listasöguna, sér í lagi birtingarmyndir náttúru og borgar, þar sem upplifun okkar af nánasta umhverfi okkar hefur mótast í gegnum tungumálið, frásögnina og textagerðina, jafnt sem hverskonar skrásetningu, myndgerð, kortlagningu og skiltagerð.

Gallerí Undirgöng er vettvangur fyrir tímabundin útilistaverk í borginni, markmiðið er að auka sýnileika samtímalistar í borgarrýminu þar sem myndlistamönnum gefst tækifæri til að takast á við óhefðbundið rými og nýjar aðstæður til sýningarhalds í almannarými.
Sýningu Einars Garibalda lýkur 15. mars.

Frekari upplýsingar veita Einar Garibaldi Eiríksson, sími: 868 8743, einar@einargaribaldi.is og Olga Bergmann - Gallerí Undirgöng, sími 6617871, berghall@simnet.is

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn

SAMBAND
ÍSLENSKRA
MYNDLISTARMANNA

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Ísland

Skrifstofan er opin virka daga frá kl 12 -16

Sími/ Tel.: +354 551 1346
Email: sim@sim.is

Kt. 551283-0709

Samfélagsmiðlar

  • Facebook
  • Instagram
logo_white_edited.png

© Samband íslenskra myndlistarmanna, 2024

bottom of page