Gallerí Göng: Tímarof - Kuggur
miðvikudagur, 1. júní 2022
Gallerí Göng: Tímarof - Kuggur
Verið velkomin á opnun ljósmyndasýningarinnar „Tímarof “ fimmtudaginn 2. júní kl 16-18.
Það er Kuggur eða Guðmundur Óli Pálmason sem sýnir ljósmyndir sínar. Hann er fæddur og uppalinn í Reykjavík, lagði stund á ljósmyndanám við Iðsnkólann í Reykjavík og seinna BA nám í ljósmyndun við University of the Arts London.
Þó að stafræn ljósmyndun hafi verið vel á legg komin þegar Guðmundur varð hugfanginn af faginu, þá hefur hann alla tíð unnið aðallega með filmur. Seinustu 8 árin eða svo hefur hann eingöngu notast við svokallaðar Polaroid peel-apart (flysju) filmur, sem hann vinnur í höndunum með allskonar spilliefnum til að ná fram draumkenndri áferð og oft á tíðum fljótandi litum, nánast eins og um vatnsliti sé að ræða.
Viðfangsefni mynda hans eru að mestu leitin fengin í hrjóstrugri íslenskri náttúru og segir Guðmundur að markmið hans sé að draga áhorfandann inn í draumaheim myndanna, þar sem að línur raunveruleikans og hins ímyndaða heims eru ekki skýrar, enda sér Guðmundur sig sem myndlistamann frekar en hefbundinn ljósmyndara.
Guðmundur hefur að undanförnu haldið nokkrar einkasýningar, þar á meðal á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og verk hanns hafa byrst í allnokkrum erlendum tímaritum.
Um „Tímarof “
Það hafa sennilega allir, meðvitað eða ómeðvitað, upplifað tímarof. Hvaða mannsbarn, sem á íslenska grund hefur stigið, hefur ekki staðið úti í ósnortinni náttúru og allt í einu verið gripið þeirri tilfinningu að hér sé tíminn ekki til á þann hátt sem við skiljum hann dagsdaglega? Fortíð og framtíð eru eitt með núinu, og við erum ekki viss um hvenær núið er. Það er tímarof.
Með því að nota útrunnar filmur, í formati sem hefur ekki verið framleitt í áraraðir, og með því að vinna þær með allskonar efnum, nær Guðmundur að kalla fram nærri því óraunverulegar sýnir. Flest verk hans fjalla um hverfulleika tímans, og eru í senn samtímaverk en þó tímalaus.
Tíminn er ekki línulaga í verkum Guðmundar, heldur er hann nokkurskonar sjónhverfing, eins og minning um draum eða fortíð í hliðstæðum raunveruleika sem þó aldrei var til.
Guðmundur veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort það sé tenging milli þess rofs sem hefur átt sér stað milli náttúru landsins og mannfólksins sem það byggir á aðra hönd, og svo á hina það rof sem hefur átt sér stað milli áðurnefnds mannfólks og andlegra hugsunna.
Þannig eru myndir af eyðibýlum í raun ekki myndir af eyðibýlum, heldur myndir af fólki. Fólki sem er farið og skilur eftir sig spurningar. Hví yfirgáfu seinustu ábúendur staðinn? Hvernig yfirgáfu þau staðinn - í anda eða í holdi? getum við, með tímarofi, fundið fyrir nærveru þessara sálna?