top of page
< Back

Helga G. Óskarsdóttir

Til stjórnar

Helga G. Óskarsdóttir

Ég býð mig fram í stjórn SÍM vegna þess að ég hef áhuga á málefnum
myndlistar og vill ég láta gott af mér leiða á þeim vettvangi. Frá því
ég var sjálf í listaskóla hef ég fylgst vel með því sem er að gerast á
myndlistarsenunni hverju sinni og tel ég mig hafa ágætis innsýn inn í
hverjar þarfirnar eru til að auka framgang listarinnar og mikilvægi
þess að styðja við listamenn og myndlistar umhverfið í heild. Það er
vegna þess að ég hef átt í óteljandi samtölum við fólk sem er að lifa
þennan raunveruleika.

Íslensk myndlistarsena er öflug og lifandi. Þar er jafnan mikið að
gerast, oft af einstakri útsjónar og eljusemi þar sem litlu fjármagni
er úr að spila og bensínið sem keyrir hluti áfram er ástríða og
endalaus áhugi og trú á listina. Þetta þekki ég af eigin raun því ég
hef í gegnum tíðina lagt mitt af mörkum til að láta hluti gerast, haft
frumkvæði og þor til að framkvæma hugmyndir sem ég hef trúað á og tel
að það bras hafi átt örlítinn þátt í að auka á fjölbreytni í
myndlistaumhverfinu.

Verkefni sem ég hef sett á laggirnar ásamt góðum félögum eru
Týsgallerí (2013-2015) en þar voru sýningar haldnar með mörgum af
frambærilegustu myndlistarmönnum okkar senu og Multis (2019-2022), sem
stóð að útgáfu á myndlistarfjölfeldum eftir samtímalistafólk. Einnig
er ég stofnandi og ritstjóri vefritsins Artzine en þar er safn greina
og viðtala sem tengjast samtímalist á Íslandi. (2016- ) Ég hef reynslu
af stjórnarsetu hjá Nýlistasafninu, Myndhöggvarafélaginu og SÍM sem
varamaður og þekki því vel til slíkrar vinnu.

Ég er ágætis liðsmanneskja, finnst frábært að vinna með góðu fólki,
tel ekki eftir mér að taka til hendinni og leggja mitt af mörkum fyrir
góðann og mikilvægann málstað sem ég brenn fyrir.

Með því að bjóða mig fram til stjórnarsetu þá er ég að bjóða fram
starfskrafta mína og reynslu. Myndlistarvöllurinn er minn heimavöllur
og þar slær hjartað.
Meiri list, meira stuð!

bottom of page