top of page

Umsögn SÍM – Sambands íslenskra myndlistarmanna um framlag listaverka í nýbyggingum

508A4884.JPG

þriðjudagur, 22. október 2024

Umsögn SÍM – Sambands íslenskra myndlistarmanna um framlag listaverka í nýbyggingum

Síðan Myndlistarlög voru sett árið 2012, en þau breyttu og skerptu á hlutverki og skyldum
Listskreytingasjóðs Ríkisins, hefur ríkt almenn sátt um framkvæmd laganna og árangur með
tilliti til fjármögnunar listaverka í opinberu rými. Núverandi frumvarp leggur til breytingar á
lögunum. Þær breytingar snúa, eftir því sem greinargerð ber með sér, að því að skerða
fjárveitingar til listskreytinga í Nýjum Landspítala. Við gerum alvarlegar athugasemdir við þessa
lagabreytingu og lítum svo á að allur málatilbúnaður í þessa veru byggi á skammsýni og skorti á
þekkingu á þessu sviði. Hér eru okkar helstu svör við atriðum greinargerðar:

Í þriðju efnisgrein er rakinn kostnaður við nýjan Landspítala og í kjölfarið segja flutningsmenn
að samkæmt sínu mati sé ekki hægt að réttlæta fjárveitingar upp á 2,1 milljarða króna til
listaverkakaupa fyrir eina byggingu. Hér leggja flutningsmenn huglægt mat sitt til grundvallar og
láta sem verkefnið sé minna en það er. Við viljum minna þingmenn á að fyrsti áfangi Nýs
Landspítala hljóðar upp á fjórar byggingar alls og að þær eru engin smásmíði;
heildarfermetrafjöldi eru meir en 111 þúsund fermetrar.

Í efnisgrein fjögur eru nokkrar fullyrðingar sem eru rangar. Þar segir: „Í fyrsta lagi hafa
listaverkin hvorki áhrif á notkunarmöguleika byggingarinnar né þá starfsemi sem byggingin
hýsir.“ Þetta huglæga mat flutningsmanna er rangt og byggir á vanþekkingu. Sérfræðingar í
heilbrigðismálum geta staðfest að listaverk eru sérlega mikilvæg til þess að skapa fjölbreytt og
lifandi umhverfi á sjúkrahúsum. Rannsóknir sýna að listaverk eru mikilvæg til þess (1) að draga
úr streitu bæði sjúlkilnga og starfsmanna, (2) þau geta leitt til styttingar sjúkrahúsdvalar, (3) þeu
draga úr þörf á lyfjagjöf við þjáningu og efla þol við þjáningu, (4) þau eiga sinn þátt í að draga úr
vandkvæðum eftir aðgerð og (5) hvetja til jákvæðra tilfinninga og skapa tilfinningatengsl sem
styðja við bata. Það er því ljóst að fjárfesting í listaverkum hefur verulega jákvæð áhrif á
„notkunarmöguleika byggingarinna“ og „þá starfsemi sem byggingin hýsir.“

Í efnisgrein fjögur segir ennfremur: „Fagurfræðilegt mat er alltaf háð persónulegri skoðun hvers
og eins og því ómögulegt að slá því föstu að tiltekið listaverk sé betra eða fegurra en önnur.“
Þessi fullyrðing er binlínis röng og jaðrar við atvinnuróg. Fagurfræðilegt mat sérfræðinga byggir
á mikilli þekkingu á gæðum, styrk og áhrifum listaverka. Þótt flutningsmenn tillögunnar viti
ekki um hvað þeir eru að ræða er það kýrskýrt að sérfræðingar eiga auðvelt með að slá því
föstu hvort „tiltekið listaverk sé betra eða fegurra en önnur.“ Fagnefndir Listskreytingasjóðs
byggja á mikilli reynslu og sérþekkingu á þessu sviði. Grundvallað mat listfræðinga og
myndlistarmanna er ávalt mikið betur rökstutt en illa rökstutt „álit flutningsmanna“ viðkomandi
tillögu.

Í efnisgrein fimm segja flutningsmenn: „Í ljósi fjölbreytileika opinberra stofnana og mismikils
byggingarkostnaðar nýbygginga er að mati flutningsmanna ekki hægt að láta eina reglu gilda um
kaup á listaverkum.“ Hér erum við sammála flutningsmönnum, enda var það hugmyndin að
baki texta laganna frá 2012 að það skuli verja að minnsta kosti 1% af kostnaði til listskreytinga.
Lögin gera ráð fyrir því að ef aðstæður eru slíkar megi verja meir en 1% til listaverkakaupa. Við
teljum því að lögin fullnægi þessari hugmynd flutningsmanna og, í ljósi mikilvægis listaverka á
sjúkrahúsum, þætti ekki óskynsamlegt að Alþingi ályktaði að verja meir en 1% í listskreytingu
vegna Nýs Landspítala, enda leiddi slík fjárfesting án efa til lækkunar á öðrum kostnaði við
rekstur sjúkrahússins. Það er ljóst af texta laganna að 1% átti að eiga við þar sem minnst þörf
væri talin á listskreytingum en að sjálfsagt væri, að mati Alþingis, að veita meira til listskreytinga
þar sem ljóst væri að almenningur nyti þeirra betur, eins og til dæmis í sjúkrastofnunum.

Við viljum í þessu samhengi minna á að ákvæði um þetta lágmark var bætt inn í Myndlistarlög
að frumkvæði allsherjar- og menntamálanefndar vegna þess óefnis sem framkvæmd fyrri laga
var komin í. Hér er tilvitnun í rökstuðning nefndarinnar frá 2012:

Lög nr. 46/1998, um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, leystu af
hólmi lög um Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 71/1990. Í lögunum var reynt „að tryggja svo sem
auðið er framkvæmd þeirrar meginreglu að listskreyting sé þáttur í hverri byggingu sem reist er
á vegum ríkisins með því að lögbinda að 1% af heildarkostnaði við bygginguna skuli varið í
þessu skyni“ eins og segir í athugasemdum við frumvarpið. Samkvæmt þessum lögum var það á
ábyrgð þeirra sem forræði höfðu fyrir hverri byggingarframkvæmd að tryggja að þessari
lagaskyldu væri framfylgt. Reynslan sýnir að þetta hefur ekki alltaf gengið eftir og í of mörgum
tilvikum hefur fé til listskreytinga, 1% af heildarbyggingarkostnaði, verið skorið niður að hluta
eða alfarið í sparnaðarskyni.

Út frá þessu væri ljóst að sú tillaga sem nú liggur fyrir þýddi að framkvæmd laganna yrði að öllu
leyti óásættanleg eins og dæmin frá því fyrir 2012 sýna. Við viljum minna á í þessu samhengi að
mjög góð sátt var um þessi lög þegar þau voru samþykkt með 98% greiddra atkvæða árið 2012.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page