Reglur
1. grein Samband íslenskra myndlistarmanna, SÍM, er hagsmunafélag myndlistarmanna.
2. grein Skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.
3. grein Tilgangur og markmið Sambands íslenskra myndlistarmanna er:
að vera málsvari allra myndlistarmanna,
að efla starfsgrundvöll þeirra og kjör,
að gæta hagsmuna þeirra og réttar,
að standa vörð um tjáningarfrelsi þeirra,
að vera virkur fulltrúi þeirra í alþjóðasamstarfi.
4. grein Samband íslenskra myndlistamanna er heildarsamtök myndlistarmanna á Íslandi.
Félagar í Félagi íslenskra myndlistarmanna, Félag íslenskra samtímaljósmyndara, Íslenskri grafík, Leirlistarfélaginu, Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Textílfélaginu verða sjálfkrafa félagar í SÍM enda séu inntökuskilyrði þeirra í samræmi við inntökureglur SÍM.
Stjórn SÍM tekur jafnframt nýja félaga inn í sambandið standist þeir inntökureglur eins og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi. Allar breytingar á inntökureglum SÍM verða að hljóta samþykki 2/3 mættra fundarmanna á aðalfundi.
5. grein Félagsmenn í Sambandi íslenskra myndlistarmanna verða sjálfkrafa félagsmenn í Myndstefi, Myndhöfundasjóði Íslands. Félagsmenn öðlast öll réttindi og skuldbinda sig til þess að hlíta öllum skyldum sem fylgja aðild að Myndstefi.
6. grein SÍM er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna. Formaður SÍM er fulltrúi í stjórn BÍL og varaformaður í forföllum hans en stjórn SÍM sækir jafnframt aðalfundi BÍL.
7. grein
Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna skipa fimm fulltrúar, formaður, varaformaður, ritari, vararitari og gjaldkeri. Varamenn eru tveir.
Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru einnig kosnir til tveggja ára og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Ennfremur skal kjósa tvo varamenn til tveggja ára. Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta í kjöri meðstjórnenda og varamanna taka sæti í stjórn. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal varpað hlutkesti á milli þeirra.
Aldrei skulu fleiri en tveir meðstjórnendur og einn varamaður ganga úr stjórninni hverju sinni. Ef stjórnarmaður hættir stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans líkur skal varamaður skipa sæti hans. Ef aðalmaður boðar forföll skal boða varamann í hans stað.
8. grein Aðalfundur skal haldinn að vori ár hvert og ekki seinna en í maílok. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir sem eru fullgildir félagar samkvæmt skrám félagsins.
Aðalfundur skal auglýstur með átta vikna fyrirvara hið minnsta. Skrifleg tilkynning um framboð til stjórnarstarfa skal hafa borist skrifstofu SÍM fyrir auglýstan umsóknarfrest, sem skal vera eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund svo að unnt verði að birta í fundarboði endanlegan lista yfir þá sem gefa kost á sér.
Endanlegt fundarboð skal sent út minnst þremur vikum fyrir aðalfund.
Stjórn skal kosin rafrænt og eru allir fullgildir félagsmenn sambandsins kjörgengir. Eftir að kjörfundi lýkur á aðalfundi skulu niðurstöður rafrænnar kosningar tilkynntar.
Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1. Skýrsla stjórnar. 2. Reikningar. 3. Stjórnarkosning. 4. Kosning eins fulltrúa í sambandsráð sbr. 9. gr. 5. Kosning félagslegs skoðunarmanns og löggilts endurskoðanda til eins árs. 6. Lagabreytingar. 7. Ákvörðun félagsgjalda. 8. Önnur mál.
Allar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.
9. grein Sambandsráð er stjórn til ráðgjafar. Sambandsráð skipa fulltrúar Félags íslenskra myndlistarmanna, Félag íslenskra samtímaljósmyndara, Íslenskrar grafíkur, Leirlistarfélagsins, Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Myndlistarfélagsins, Textílfélagsins og fulltrúi félagsmanna sem ekki eru meðlimir í neinu af ofangreindum félögum, kosinn á aðalfundi sambandsins. Fulltrúar aðildarfélaga SÍM í Sambandsráði séu jafnframt fullgildir félagar í SÍM. Sambandsráð skal funda með stjórn og varamönnum stjórnar minnst tvisvar sinnum á ári. Sambandsráð getur óskað eftir aukafundi.
10. grein Auk aðalfundar skal sambandið halda eigi færri en tvo almenna félagsfundi á ári, að hausti og um miðjan vetur. Eru slíkir fundir ályktunarhæfir um atriði er snerta hagsmuni myndlistarmanna og allt annað er viðkemur félagsmönnum, hafi þeir verið boðaðir með viku fyrirvara. Stjórn SÍM skal ávallt kveða saman félagsfund ef 30 félagsmenn eða fleiri æskja þess. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum.
11. grein Stjórn SÍM ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins á milli aðalfunda og geri samninga fyrir hönd félagsins. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sambandsins. Ennfremur skipar stjórn í ráð og nefndir fyrir hönd sambandsins.
12. grein Sambandið gefi út fréttablað/fréttabréf og starfræki skrifstofu með starfsmanni/framkvæmdastjóra.
13. grein Aðalfundur ákveður árgjald sambandsins. Gjalddagi árgjalds í SÍM er 1. janúar ár hvert og eindagi 1. febrúar. Eftir eindaga reiknast almennir dráttarvextir. Fullgildir félagar SÍM teljast þeir sem greitt hafa félagsgjöld yfirstandandi árs.
Þeir félagsmenn sem ekki hafa greitt félagsgjöld hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum né aðalfundi og ekki heldur kjörgengi í stjórn eða önnur trúnaðarstörf fyrir sambandið, nema þeir hafi gert upp skuld sína fyrir aðalfund.
Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína allt að þrjú ár aftur í tímann.
Félagsmenn sjötugir og eldri greiða hálft árgjald til sambandsins. Stjórnarmenn SÍM skulu undanþegnir árgjaldi til sambandsins.
Skylt er að taka skriflega úrsögn félagsmanna til greina.
14. grein Breytingar á lögum SÍM verða ekki gerðar nema á aðalfundi og því aðeins að 2/3 mættra fundarmanna greiði þeim atkvæði. Allar tillögur um lagabreytingar svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal upp til atkvæða á aðalfundi skulu boðaðar í fundarboði.
15. grein Félagar eru skyldir að hlýða lögum sambandsins og halda í einu og öllu þær samþykktir og samninga sem SÍM hefur gert.
16. grein Lög þessi öðlast þegar gildi.
1. gr. Virðing
Við sinnum störfum okkar með hagsmuni myndlistarmanna og félagsmanna SÍM að leiðarljósi og stöndum vörð um heiður myndlistarinnar.
2. gr. Fordæmi
Við stuðlum að framgangi þessara reglna og styðjum við þær með því að ganga á undan með góðu fordæmi.
3. gr. Heiðarleiki
Við gegnum störfum okkar af trúmennsku og heiðarleika. Við greinum frá öllum persónulegum hagsmunum og hagsmunaárkestrum sem geta haft áhrif á störf okkar í þágu félagsins. Við víkjum úr nefndum eða af nefndarfundum ef slíkir hagmunaárekstrar eru fyrir hendi.
4. gr. Ábyrgð
Við vinnum störf okkar af samviskusemi og öxlum ábyrgð á verkum okkar. Ef við sætum opinberri rannsókn, sem skaðað geta hagsmuni félagsins, víkjum við sæti þar til málið er til lykta leitt.
5. gr. Gagnsæi
Við höldum í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum okkar. Við eigum að geta rökstutt ákvarðanir okkar og látið lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráða för.
6. gr. Hlutlægni
Við gætum þess að sýna hlutlægni og tökum ákvarðanir á grundvelli verðleika, þ.m.t. þegar við komum opinberlega fram, gerum samninga eða tökum afstöðu til einstakra mála. Við látum skyldleika, vensl, vinskap eða eigin hagsmuni aldrei ráða ákvörðun okkar í störfum fyrir SÍM.
7. gr. Réttlæti
Við höfum jafnrétti að leiðarljósi og vinnum gegn fordómum og mismunun vegna kyns, þjóðernis, trúarbragða, aldurs, kynferðis, skoðana, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
——————————-
Verklagsreglur stjórnar SÍM.
Í 11. grein laga SÍM segir: Stjórn SÍM ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins á milli aðalfunda og geri samninga fyrir hönd félagsins. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sambandsins. Ennfremur skipar eða tilnefnir stjórn í ráð og nefndir fyrir hönd sambandsins.
Verklagsreglur þessar eru ætlaðar stjórnarmönnum SÍM, til að tryggja gagnsæi, fagmennsku og lýðræði í starfi stjórnarliða og varamanna í stjórn SÍM.
1. Stjórn SÍM skal ávallt gæta þess við skipan eða tilnefningar félagsmanna í nefndir, stjórnir og ráð að lögum félagsins sé fyllt og jafnframt skal tekið mið af siða- og verklagsreglum félagsins.
2. Allir fullgildir félagsmenn í SÍM hafa jafnan möguleika til setu í nefndum og stjórnum þar sem SÍM tilnefnir fulltrúa. Félagsmenn geta óskað eftir setu í nefndum og ráðum, en jafnframt getur stjórn SÍM auglýst eftir fulltrúum. Félagsmaður er fullgildur meðlimur SÍM ef hann er skuldlaus við félagið skv. 13. gr. laga SÍM.
3. Stjórn SÍM skal gæta jafnræðis við skipan í nefndir, stjórnir og ráð og skal að öllu jöfnu ekki skipa sömu manneskju til setu í fleiri en einni nefnd í einu. Gildir það jafnt um aðalmenn og varamenn.
4. Fulltrúar stjórnar SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum ættu alla jafnan ekki að sitja lengur en tvö tímabil samfellt í sömu nefnd og þá aðeins ef lög viðkomandi stofnunar býður svo.
5. Stjórn SÍM getur sett á laggirnar nefndir um málefni er taka þarf á sérstaklega og getur löglega boðaður félagsfundur einnig óskað eftir slíku.
6. Stjórnarliðum SÍM ber að mæta á alla boðaða fundi sambandsins þ.e. stjórnarfundi, aðalfundi, sambandsráðsfundi og félagsfundi. Boða skal forföll tímanlega, svo boða megi varamann.
7. Stjórnarliðar SÍM ber að vinna með gagnsæi og lýðræði í huga í öllu starfi sínu fyrir samtökin og ber að gæta meðalhófs í sinni vinnu fyrir samtökin.
8. Stjórnarliðar skulu ætíð hafa í huga að málefni stjórnarfunda SÍM eru bundin trúnaði.
9. Allir félagsmenn SÍM sem starfa fyrir félagið í stjórn þess, stjórnarliðar og varamenn, verða að vera þess minnugir að þeir starfa í nafni og umboði SÍM og skulu fylgja lögum sem og siða- og verklagsreglum sambandsins.
10. Sjá einnig hlutverk stjórnar í 4., 7. og 10. grein laga SÍM.
——————————-
Verklagsreglur fulltrúa SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum.
Verklagsreglur þessar eru ætlaðar þeim félagsmönnum SÍM, sem skipaðir eða tilnefndir hafa verið af stjórn SÍM til setu í nefndum stjórnum og ráðum. Reglurnar eru hugsaðar til að tryggja gagnsæi, fagmennsku og lýðræði í starfi félagsmanna SÍM á vegum sambandsins.
1. Stjórn SÍM skipar eða tilnefnir fulltrúa sambandsins í nefndir, stjórnir og ráð. Ávallt skal gæta þess við skipan eða tilnefningar að lögum SÍM sé fyllt og jafnframt skal tekið mið af siðareglum sambandsins.
2. Allir fullgildir félagsmenn í SÍM hafa jafnan möguleika til setu í nefndum og stjórnum þar sem SÍM tilnefnir fulltrúa. Félagsmenn geta óskað eftir setu í nefndum og ráðum, en jafnframt getur stjórn SÍM auglýst eftir fulltrúum. Félagsmaður er fullgildur meðlimur SÍM ef hann er skuldlaus við félagið skv. 13. gr. laga SÍM.
3. Fulltrúar stjórnar SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum ættu alla jafnan ekki að sitja lengur en tvö tímabil samfellt í sömu nefnd og þá aðeins ef lög viðkomandi stofnunar býður svo.
4. Stjórn SÍM skal gæta jafnræðis við skipan í nefndir, stjórnir og ráð og skal að öllu jöfnu ekki skipa sömu manneskju til setu í fleiri en einni nefnd samtímis. Gildir það jafnt um aðalmenn og varamenn.
5. Listi yfir nefndir, stjórnir og ráð sem SÍM tilnefnir eða skipar í skal vera aðgengilegur á heimasíðu SÍM, ásamt skilgreindu hlutverki þeirra og starfstíma.
6. Fulltrúar SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum skulu vera meðvitaðir um mikilvægi upplýsingastreymis til SÍM. Er þeim gert að skila fundargerðum til félagsins og skal þeim haldið til haga á skristofu SÍM. Stjórn SÍM getur kallað fulltrúa sína til fundar til upplýsingar um nefndarstörf sín.
7. Nýr nefndarmaður skal fá sendar síðustu fundargerðir frá viðkomandi nefnd, til undirbúnings og kynningar.
8. Allir sem eru skipaðir eða tilnefndir af SÍM í stjórnum, nefndum og ráðum verða að vera þess minnugir að þeir starfa í nafni og umboði stjórnar SÍM og skulu fylgja lögum, siða- og verklagsreglum sambandsins.
1 gr. Verkkaupi Samkeppni getur verið á vegum einstaklinga eða lögaðila. Um skipulag og framkvæmd samkeppna skal hafa samráð við stjórn SÍM.
2. gr. Tilgangur samkeppni Tilgangur samkeppni er að fá fram tillögu að myndlistarverki eða myndlistarverkum sem hefur mest listrænt gildi.
3. gr. Tilhögun samkeppni
Tilhögun samkeppni fer eftir eðli og umfangi verefnis:
Opin samkeppni: Samkeppni opin öllum myndlistarmönnum sem uppfylla skilyrði samkeppnislýsingar. Opin samkeppni getur verið í einu þrepi eða tveimur. a) Opin samkeppni í einu þrepi: þátttakendur skila inn fullunnum tillögum eins og tilgreint er í samkeppnislýsingu. b) Opin samkeppni í tveimur þrepum: þátttakendur skila inn frumdrögum og lýsingu á hugmynd eins og tilgreint er í samkeppnislýsingu. Valnefnd velur ákveðinn fjölda tillagna til frekari útfærslu. Þátttakendur fá greidda fyrirfram ákveðna þóknun fyrir vinnu við frekari útfærslu tillögu sinnar. Forvalsnefnd og dómnefnd skal ekki skipuð sömu aðilum Lokuð samkeppni:
Samkeppni þar sem þátttaka er aðeins heimil þeim myndlistarmönnum sem valdir hafa verið af valnefnd. Lokuð samkeppni getur verið með opnu eða lokuðu forvali:
a) Lokuð samkeppni með opnu forvali: samkeppni þar sem valnefnd velur ákveðinn fjölda myndlistarmanna til þátttöku í samkeppninni eftir að auglýst hefur verið eftir þátttakendum í forval. Þátttakendur fá greidda fyrirfram ákveðna þóknun fyrir vinnu við frekari útfærslu tillögu sinnar. Forvalsnefnd og dómnefnd skal ekki skipuð sömu aðilum b) Lokuð samkeppni með lokuðu forvali: samkeppni þar sem valnefnd velur ákveðinn fjölda myndlistarmanna til þátttöku í samkeppninni án þess að auglýst sé eftir þátttakendum. Þátttakendur fá greidda fyrirfram ákveðna þóknun fyrir vinnu við gerð tillögu sinnar. Forvalsnefnd og dómnefnd skal ekki skipuð sömu aðilum
4.gr. Þátttakendur Í samkeppnislýsingu skal koma fram hverjir megi taka þátt. Hópi eða lögaðila er því aðeins heimil þátttaka að myndlistarmaður sem sjálfur á þátttökurétt sé ábyrgur fyrir þátttöku hópsins eða lögaðilans.
Þátttaka er óheimil dómnefndarmönnum og öðrum sem eru þeim nátengdir. Sama gildir um þá sem dómnefnd leitar til um aðstoð eða sérfræðilegt álit.
Þyki vafi leika á um þátttökurétt skal trúnaðarmaður leita umsagnar SÍM.
5. gr. Samkeppnislýsing
Verkkaupi skal, í samráði við trúnaðarmann (sjá grein 7), semja samkeppnislýsingu sem skal vera útfærsla á þessum samkeppnisreglum. Í samkeppnislýsingu skal gerð grein fyrir verkefninu og hverjir hafi rétt til þátttöku. Einnig skal kveða á um réttindi og skyldur verkkaupa, dómnefndar, þátttakenda og SÍM.
Í samkeppnislýsingu skal eftirfarandi koma fram: boð til samkeppni, upplýsingar um verkkaupa, tilhögun samkeppni, tilgangur og viðfangsefni. Gera þarf skýra grein fyrir forsendum samkeppninnar og skulu markmið, tímasetningar, kostnaðarrammi og innihald verkefnis vera skýr.
Samkeppnislýsing skal vera yfirfarin og samþykkt af trúnaðarmanni og SÍM.
Með skilum á tillögu, vegna samkeppni, telst þátttakandi hafa samþykkt samkeppnislýsingu og skilyrði hennar.
6.gr. Dómnefnd Þegar samkeppnislýsing liggur fyrir skal skipa fimm manna dómnefnd skulu tveir dómnefndarfulltrúa tilnefndir af SÍM. Ef um um lítið verkefni er að ræða mega dómnefndarfulltrúar þó vera þrír og einn þeirra tilnefndur af SÍM). Aðra dómnefndarfulltrúa tilnefnir verkkaupi, æskilegt væri ef þeir hefðu sérþekkingu á sviði myndlistar. Dómnefndarfullttrúar kjósa formann úr sínum hópi. Formaður boðar fundi, sér um fundarstjórn og heldur utan um niðurstöður funda. Hver dómnefndarfulltrúi fer með eitt atkvæði. Til að ákvörðun dómnefndar sé gild þarf samþykki meirihluta hennar.
Rita skal fundargerðir á fundum dómnefndar.
7.gr. Trúnaðarmaður Stjórn SÍM skipar trúnaðarmann sem annast samskipti milli verkkaupa, dómnefndar og þátttakenda. Trúnaðarmanni ber að gæta fyllsta hlutleysis og trúnaðar í öllum störfum sínum í samræmi við siðareglur SÍM.
8.gr. Nafnleynd
Samkeppni skal ávallt fara fram með nafnleynd keppenda þar til dómnefnd hefur lokið störfum. Í þessu skyni skulu tillögur einkenndar með dulnefni eða talnaröð og skal nafnmiði fylgja í innsigluðu umslagi merktu á sama hátt. Á nafnmiða skal tilgreina hver eigi höfundarrétt að tillögunni.
Beri ríka nauðsyn til má halda opna samkeppni án nafnleyndar.
9.gr. Verkefnisstjóri
Verkkaupi getur ráðið verkefnisstjóra sem annast samkeppnisferlið fyrir hönd verkkaupa og ritar
fundargerðir dómnefndar. Í því tilfelli situr verkefnisstjóri fundi dómnefndar. Hann er bundinn trúnaði um allt er lýtur að samkeppni, en hefur ekki atkvæðisrétt.
11. gr. Kostnaður Verkkaupi greiðir allan kostnað af framkvæmd samkeppni. Upphæðir verðlaunafjárhæðar, þátttökuþóknunar, þóknunar trúnaðarmanns og þóknunar til SÍM skulu bornar undir SÍM til samþykktar. Tjón á tillögum er á ábyrgð verkkaupa.
12. gr. Dómnefndarstarf
Dómnefndarstarf er trúnaðarstarf og er dómnefnd bundin þagnarskyldu um allt sem varðar samkeppnina. Að jafnaði skulu dómnefndarmenn og trúnaðarmaður SÍM, og verkefnisstjóri hafi hann verið ráðinn, einir sitja fundi dómnefndar. Dómnefnd er heimilt að kalla til sín sérfræðinga á einstaka fundi ef þurfa þykir við mat á tillögum; eru þeir einnig bundnir þagnarskyldu um allt er varðar samkeppnina. Dómnefnd ber að gæta fagmennsku, sanngirni og jafnræðis í vinnu sinni. Bóka skal allar samþykktir og sératkvæði.
Dómnefnd skal vísa þeim tillögum frá sem ekki hefur verið skilað á tilsettum tíma, ekki fullnægja skilyrðum samkeppnislýsingar eða ef tillögu skortir veigamikla þætti sem ætlast er til að gerð sé grein fyrir.
13.gr. Álit dómnefndar
Dómnefnd skal fjalla um allar tillögur sem fullnægja skilyrðum samkeppnislýsingar.
Dómnefnd skal skila skriflegu áliti til trúnaðarmanns, þar sem úrskurður hennar er rökstuddur. Þar skal koma fram almenn umsögn sem tekur mið af fagurfræðilegum, tæknilegum og fjárhagslegum atriðum, umhverfisþáttum og úthlutun verðlaunafjárins. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.
14.gr. Kynning á niðurstöðu samkeppni Verkkaupa ber að kynna niðurstöðu samkeppni opinberlega. Gögn samkeppnistillagna skulu sendar þáttakendum að sýningu lokinni, þeim að kostnaðarlausu.
15.gr. Birting Opinber birting tillagna í seinna þrepi samkeppni er heimil í tengslum við samkeppnina. Við birtingu skal nafngreina alla þá sem að verkinu standa.
16. gr. Eignarréttur Þáttakendur eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum í samræmi við Höfundalög. Verkkaupi hefur forkaupsrétt að völdum tillögum í sex mánuði eftir að niðurstöður hafa verið birtar.
Útboðsaðili hefur rétt til þess að nota heildarniðurstöður samkeppninnar við frekari vinnu að samkeppnisverkefninu, enda brjóti það ekki í bága við gildandi íslenska löggjöf um höfundarétt.
17. gr. Samningur Þegar fyrir liggur að ákveðin tillaga verði framkvæmd gera verkkaupi og myndlistarmaður með sér samning um áframhaldandi framvindu verkefnisins. Sé samningur ekki gerður innan settra tímamarka, sbr. 15. gr. er myndlistarmanni frjálst að ráðstafa tillögu sinni að vild.
Hvorki dómnefndarfulltrúum né trúnaðarmanni er heimilt að hafa milligöngu um eða vera aðilar að áframhaldandi framkvæmd verkefnisins eftir að dómnefndarstörfum lýkur.
18. gr. Vinna að verkefni að lokinni samkeppni
Hafi höfundur tillögu sem dómnefnd hefur mælt með til frekari úrvinnslu eða framkvæmdar ekki nægileg föng eða aðstæður til þess að annast framhaldsvinnu í tengslum við samkeppnistillöguna, skal honum falið að vinna það í samvinnu við annan fagmann sem hann velur í samráði við útboðsaðila. Dómnefndarmanni og trúnaðarmanni er óheimilt að hafa milligöngu þar um eða taka verkefnið að sér.
Telji útboðsaðili að samkeppni lokinni að sérstakar ástæður séu til að hafa annan hátt á en dómnefnd mælti með kemur það til greina að höfðu samráði við stjórn SÍM. Með sérstökum ástæðum er átt við aðstæður eða atriði sem dómnefnd var ókunnugt um er hún kvað upp úrskurð sinn.
19. gr. Ágreiningur
Rísi ágreiningur um framkvæmd samkeppnisreglna SÍM skal leitast við að ná sáttum fyrir tilstilli sáttamanns sem aðilar að málinu koma sér saman um að skipa. Náist ekki lausn með þeim hætti skal málinu skotið til úrlausnar gerðardóms sem skipaður skal einum gerðardómsmanni skipuðum af stjórn SÍM, öðrum skipuðum af verkkaupa en viðkomandi héraðsdómari skal skipa oddamann sem jafnframt verði formaður gerðardóms nema annað sé tekið fram í keppnislýsingu.
Gerðardómur úrskurðar jafnframt um hvor málsaðila skuli bera kostnað við gerðardóminn í hverju máli og hafi til hliðsjónar reglur eml nr. 91/1991, XXI kafla laganna.
Stjórn SÍM tilnefndur trúnaðarmann þegar haldnar eru samkeppnir meðal listamanna þar sem farið er eftir Samkeppnisreglum SÍM.
Trúnaðarmaður SÍM
Trúnaðarmaður skal tryggja að farið sé eftir Samkeppnisreglum SÍM og kynna þær rækilega fyrir öllum dómnefndaraðilum.
Fer ásamt samkeppnisnefnd SÍM yfir keppnislýsingu, auglýsingu og önnur kynningargögn og gerir nauðsynlegar athugasemdir með hagsmuni listamanna í huga;
Svarar fyrirspurnum frá listamönnum í tengslum við auglýsingu;
Afhendir listamönnum gögn í samræmi við keppnislýsingu;
Tekur á móti innsendum tillögum og sér til þess að listamenn fái í hendur kvittun fyrir móttökuna;
Gerir skrá yfir innsend gögn frá listamönnum, ásamt nöfnum eða dulnefnum eftir því sem við á og gerir dómnefnd grein fyrir skilum;
Gengur frá gögnum til endursendingar til listamanna þegar um ræðir forval fyrir lokaða eða blandaða samkeppni. Sendir þá einnig bréf til þeirra listamanna er þátt tóku þar sem fram kemur hvaða listamenn voru valdir inn í keppnina. Gengur frá samkomulagi við þá sem valdir eru til þátttöku um framhald samkeppninnar;
Situr fundi dómnefndar sé þess óskað og fylgist með frágangi á niðurstöðum dómnefndar;
Er viðstaddur þegar nafnmiðaumslög eru opnuð;
Tilkynnir þátttakendum niðurstöðu dómnefndar;
Tekur niður sýningu og skilar gögnum til þátttakenda
Fylgist með því að keppnislýsingu sé fylgt í hvívetna og að staðið sé við auglýsta tímasetningu hinna ólíku þátta samkeppninnar.
Skal gæta fyllstu nafnleyndar sbr. 7. og 8. gr. Samkeppnisreglna SÍM.


