Soviet Barbara - Sagan um Ragnar Kjartansson í Moskvu sýnd í Bíó Paradís
fimmtudagur, 28. september 2023
Soviet Barbara - Sagan um Ragnar Kjartansson í Moskvu sýnd í Bíó Paradís
Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður, opnar nýtt listasafn í hjarta Moskvu með rússneskri endurgerð af sápuóperunni Santa Barbara. Hann tekst á við pólitískan þrýsting, þunga sögunnar og ritskoðun skömmu áður en innrás skellur á Úkraínu.
Í lok árs 2021 hélt Ragnar Kjartansson til Moskvu til að setja upp fyrstu sýninguna í glæsilegri menningarmiðstöð í miðborginni. Miðstöðin, GES-2, var áður orkuver sem knúði Kreml, sjálft valdasetur þessa víðfeðmasta ríkis heims.
Stærsta listaverk Ragnars á sýningunni var lifandi skúlptúr þar sem hópur 70 listamanna, leikara og tæknifólks, lék, tók upp og framleiddi einn þátt á dag af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara á rússnesku. Í Soviet Barbara er fylgst með aðdraganda, opnun og eftirmála þessa sérstæða ævintýris sem hlaut skjótan endi þegar Rússar réðust inn í Úkraínu.
Soviet Barbara var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni HotDocs í Toronto fyrr á árinu og hlaut í kjölfarið dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði. Næst heldur myndin svo á Nordisk Panorama eftir frumsýningu í Bíó Paradís þann 20.september.