Safnopnun - Ásgerðarsafn.is

fimmtudagur, 15. maí 2025
Safnopnun - Ásgerðarsafn.is
Vefsafnið Ásgerðarsafn.is hefur verið opnað fræðasamfélaginu og almenningi.
Ásgerðarsafn.is (asgerdarsafn.is) er viðamikið listasafn á netinu helgað myndvefnaði listamannsins Ásgerðar Búadóttur (1920-2014), eins helsta frumkvöðuls nútíma veflistar á Íslandi, en ferill hennar spannaði seinni helming tuttugustu aldar.
Öllum þekktum verkum Ásgerðar, rúmlega 200 talsins, eru gerð nákvæm skil í máli og myndum, svo og þeim rúmlega 120 myndlistar- og listiðnaðarsýningum þar sem verk hennar hafa verið sýnd. Alls eru um 1000 ljósmyndir í safninu og 100 sýningarskrár. Einnig er viðamikil fjölmiðlaumfjöllun um list og sýningar Ásgerðar í gerð aðgengileg, alls um 800 skrár.
Hugsjón verkefnisins er að auka aðgengi almennings og fræðasamfélagsins að list og ferli Ásgerðar og þar með styðja við varðveislu íslensks menningararfs og listasögu.
Auk þess að gera verk Ásgerðar aðgengileg til skoðunar, en flest þeirra eru í einkaeign, hefur vefsíðan að markmiði að vera heildarverkaskrá (catalogue raisonné) yfir ofin listaverk Ásgerðar Búadóttur.
Um 5 ára rannsóknarvinna liggur að baki, bæði við leit að verkum, rakningu eigenda- og sýningarsögu þeirra, ljósmyndun, auk mikillar vinnu við hugbúnaðarþróun.
Verkefnisstjóri og umsjónarmaður vefsíðunnar er Björn Þrándur Björnsson, sonur Ásgerðar. Í fagráði verkefnisins sitja Aldís Arnardóttir listfræðingur, Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur og Ingvar Víkingsson grafískur hönnuður.
Myndir, upplýsingar, og umfjöllun tengt ferli Ásgerðar eru vistaðar í gagnagrunni sem tengist vefsíðunni með valkvæðum hætti, þannig að hægt er að stjórna hvaða efni úr gagnagrunninum birtist á vefsíðunni. Hugbúnaðarþróun gagnagrunnsins (Claris FileMaker) og tengdrar vefsíðu (WordPress) hefur verið unnin af fyrirtækinu Fislausnir ehf; Kolbeinn Reginsson, Sigurður Finnsson.
Styrktaraðilar verkefnisins hafa verið Myndlistarsjóður, Myndstef og Menningarsjóður Seðlabanka Íslands tengdur nafni Jóhannesar Nordal.
Þeim sem skoða safnið er bent á ýmsar upplýsingar sem enn vantar og fólk þá hvatt til að senda inn myndir og aðrar upplýsingar á netfangið info@asgerðarsafn.is og verða slíkar upplýsingar nýttar til stöðugrar uppfærslu á vefnum.