Reykjavík: Samkeppni um ljóslistaverk fyrir Vetrarhátíð 2022
föstudagur, 26. nóvember 2021
Reykjavík: Samkeppni um ljóslistaverk fyrir Vetrarhátíð 2022
Reykjavíkurborg í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur fyrir samkeppni um ljóslistaverk á Vetrarhátíð 2022. Verkið felst í vörpun á stafrænu verki á Hallgrímskirkju en undanfarin ár hefur Hallgrímskirkja verið eitt helsta kennileiti hátíðarinnar. Sigurverkið verður sýnt á Vetrarhátíð 2022 dagana 3.-6. febrúar.
Samkeppnin er opin öllum, myndlistafólki, hönnuðum, tónlistarfólki, ljósafólki, tölvunarfræðingum eða öðrum þeim sem vinna með rafmagn, sköpun og list í einhverju formi.
Markmið og áherslur
Markmið samkeppninnar er að virkja íslenskt hugvit og styrkja Reykjavík sem skapandi borg sem einkennist af lifandi og spennandi umhverfi. Fyrsta Vetrarhátíð í Reykjavík var haldin árið 2002 og er markmiðið með henni að lýsa upp skammdegið og bjóða borgarbúum að njóta lista og afþreyingu í vetrarmyrkinu.
Verðlaun
Sigurvegari hlýtur 1.000.000 kr. í verðlaun.
Áherslur dómnefndar
Dómnefnd leggur eftirfarandi áherslur í mati sínu:
sterk heildarhugmynd
listrænt gildi tillögu
Einnig verður horft til raunhæfni og kostnaðar við framkvæmd hugmyndar og samsetningar teymis.
Tímarammi
25. nóvember 2021 // samkeppni kynnt og opnað fyrir fyrirspurnir
3. desember 2021 // lokar fyrir fyrirspurnir
6. desember 2021 // fyrirspurnum svarað á síðu MH&A
4. janúar 2022 // skil tillagna
12. janúar 2022 // niðurstaða kynnt
3.-6. febrúar 2022 // Vetrarhátíð í Reykjavík
Dómnefnd
Ólöf Kristín Sigurðardóttir forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur
Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og verkefnastjóri hjá Skipulags- og framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar
Marcos Zotes, arkitekt Basalt arkitektar AÍ
Keppnisritari og trúnaðarmaður:
Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
Úrslit og verðlaun
Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum 11. janúar 2021. Þegar dómnefnd hefur formlega lokið störfum verður nafnleynd rofin og þátttakendum tilkynnt um niðurstöður dómnefndar. Dómnefnd færir skriflega rök fyrir niðurstöðu sinni.
Skilaform og afhending
Tillögur skulu innihalda eftirfarandi:
Myndefni og texta sem sýna og útskýra heildarhugmynd verksins, listrænt gildi og praktíska hagnýtingu tillögu.
Kostnaðaráætlun
Tillögum skal skila á pdf-formi eða í rafrænni framsetningu í gegnum vefsíðuna WeTransfer á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir miðnætti þriðjudaginn 4. janúar 2022.
Tillögur skulu merktar með sex tölustafa auðkennisnúmeri sem þátttakendur velja sjálfir. Með tillögunni skal einnig senda skjal/nafnamiða með sama auðkennisnúmeri sem inniheldur uppplýsingar um þátttakendur ásamt nafni, netfangi og símanúmeri tengiliðar hópsins. Keppnisritari er sá eini sem sér þær upplýsingar. Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.
Þegar farið er inn á WeTransfer er hægt að velja Take me to Free eða Get WeTransfer Pro. Almennt er nóg að velja Take me to Free nema ef sendandi er með Pro aðgang.
Hlaðið niður skjölunum, ,,+ Add your files”.
Setjið inn netfang móttakanda: Email to samkeppni@honnunarmidstod.is
Setjið inn netfang sendanda: Your email xxx@xxx.xx
Ýtið á ,,Transfer”.
Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að hafa samband við keppendur sem ekki hljóta verðlaun um mögulegt samstarf. Ef dómnefnd telur enga innsenda tillögu koma til greina til nánari útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum tillögum. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.
Hagnýting keppnistillagna
Samið verður við sigurvegara um framkvæmd vinningstillögu. Tillöguhöfundar eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum, sbr. höfundarlög nr. 73/1972.
Fyrirspurnir
Fyrirspurnir má senda í samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir miðnætti 3. desember 2022. Þeim verður svarað hér á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs 6. desember.
Vetrarhátíð 3.-6. febrúar 2022
Tilgangur Vetrarhátíðar er að lífga upp á borgarlífið á dimmustu vetrarmánuðunum með því að tengja saman ólíka viðburði sem allir tengjast þema hátíðarinnar, ljósi og myrkri. Á dagskrá Vetrarhátíðar eru fjölbreytileg ljóslistaverk, Safnanótt og Sundlauganótt.
Á Safnanótt opna söfn í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00-23.00. Söfnin leggja áherslu á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita þannig fastagestum nýja sýn á söfnin og laða að sér nýja. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið hennar fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.
Á Sundlauganótt verða tíu sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu opnar frá kl. 18:00-22:00 og aðgangur er ókeypis. Uppákomur verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri.
Vetrarhátíð í Reykjavík var haldin í fyrsta sinn árið 2002.
Smelltu hér fyrir vefsíðu Vetrarhátíðar