Myndlistarskólinn í Reykjavík: 10% afsláttur fyrir félagsmenn af spennandi námskeiði
miðvikudagur, 22. júní 2022
Myndlistarskólinn í Reykjavík: 10% afsláttur fyrir félagsmenn af spennandi námskeiði
10% afsláttur fyrir félagsmenn SÍM af spennandi námskeiði hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík
Hefurðu áhuga á náttúruskoðun og útivist? Og kannski silungsveiði?
Dagana 8.-12. ágúst býður Myndlistaskólinn í Reykjavík upp á áhugavert námskeið á Melrakkasléttu í einu af nyrstu byggðarlögum landsins, rétt sunnan við Heimskautsbaug.
Námskeiðið hentar fólki á öllum aldri en markmiðið er að kynna myndlistina sem verkfæri til rannsóknar og skoðunar. Viðfangsefnið verður hin harðbýla og töfrandi náttúra svæðisins.
Sjónum verður jöfnum höndum beint að gróðri jarðar, fjörunni og hinum fjölmörgu, ísöltu lónum sem einkenna svæðið. Fuglalífi, smádýrum og plöntum verður gefinn gaumur og fylgst með því hvernig fiskurinn hegðar sér á ólíkum tímum sólarhringsins. Þeir sem hafa áhuga á veiðiskap munu því ennfremur finna ýmislegt við sitt hæfi.
Bækistöð og vinnuaðstaða verður í gamla síldarbragganum, Óskarsstöð, nýrri listamiðstöð á Raufarhöfn. Teikniblokk, blýantur og vatnslitir verða aðalverkfærin en vasaljós, stækkunargler, smásjá, myndavél og önnur þessháttar tól eiga fullt erindi í verkfærakistu þátttakenda – að ógleymdri veiðistönginni.
Leiðbeinendur verða myndlistarmennirnir Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, Pétur Magnússon og Pétur Örn Friðriksson. Ásamt þeim munu ýmsir gestir líta við. Til dæmis mun Pedro Rodrigues líffræðingur kynna Rannsóknastöðina Rif og það vísindastarf sem þar fer fram en verkefni stöðvarinnar er að vakta breytingar á lífríki og náttúru svæðisins.
Verð er 98.000 kr.-. Innifalið í því er hádegis- og kvöldverður í fimm daga en námskeiðinu lýkur með veislu að kvöldi föstudagsins 12. ágúst. Félagsmenn SÍM fá 10% afslátt af námskeiðsverðinu. Áhugasamir eru einnig hvattir til að kynna sér styrki stéttarfélaga.
Ýmsir gistimöguleikar eru á svæðinu. Skólinn getur útvegað gistingu á hagstæðu verði í íbúðum á Raufarhöfn en verðið ræðst af fjölda. Áhugasamir um slíkt geta sent póst á Snorra Hilmarsson, (snorrihilmars@simnet.is).
Námskeiðið er haldið í samvinnu við Rannsóknastöðina Rif og Heimsenda, menningarfélag Óskarsbragga á Raufarhöfn með tilstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.
Frekari upplýsingar og skráning á mir.is