top of page

Menningarhúsið Hof: Vetrarlogn - Jóna Hlíf Halldórsdóttir

508A4884.JPG

föstudagur, 3. desember 2021

Menningarhúsið Hof: Vetrarlogn - Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Vetrarlogn
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Menningarhúsið Hof
04.12.2021 - 09.01.2022

Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar einkasýninguna Vetrarlogn í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 4. desember 2021 klukkan 14:00 og stendur sýningin til 9. janúar 2022.
Á opnunardaginn kemur út bókin Brim Hvít Sýn sem fjallar um myndlist Jónu Hlífar, innsetningar og textaverk, sem hún hefur skapað undanfarna tvo áratugi. Auður Aðalsteinsdóttir, doktor í bókmenntafræði, er ritstjóri bókarinnar og Júlía Runólfsdóttir, sá um hönnun og útlit. Ástríki útgáfa gefur bókina út.

Jóna Hlíf (f.1978) útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA-gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2012. Jóna Hlíf hefur haldið einkasýningar á viðurkenndum sýningarstöðum, m.a. í Listasafni Reykjavíkur og í Listasafninu á Akureyri. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk hennar í eigu opinberra safna.
Textaverk, tilraunir með efni og innsetningar eru kjarninn í myndrænni tjáningu verka Jónu Hlífar. Texti sem áferð: sem leið til að birta hugsanir, við að setja fram og skapa samfélag, eða sem grundvöllur hugmynda. Í verkunum hefur Jóna Hlíf m.a. fengist við fyrirbærin kjarna, tíma og ímynd sögunnar. Nánari upplýsingar um verk Jónu Hlífar er að finna á heimasíðu jonahlif.is

Um sýninguna Vetrarlogn

Árstíminn á Íslandi skiptist í raun í tvo nánast jafnstóra hluta: Vetur og ekki-vetur. Vetur frá því hér um bil um miðjan október og fram undir apríllok. Helmingur ársins vetur: kaldur og myrkur, stundum þungur. Svarbláir litir, hvítir tónar. Illskeytt veður, vaxandi lægðir. Að vetrarlagi verða birtubrigði og næturþagnir eilíf tilhugsunarefni. Engu að síður eru það hvorki ljósið né ljósleysið sem skera úr um hvort veturnir verða mildir eða harðir. Ljóstakturinn helst óbreyttur, skammdegið líður hjá.
Það er kyrrðin sem fylgir logninu sem ber með sér kontrast við vetrartíðina; lognið sem maður á ekki von á og hugar ekki að á milli lægða. Lognið greinir góðæri frá erfiðisvetrum. Þannig er vetrarlogn eins og eitt þessara fyrirbæra sem maður í gegnum lífið leiðir hugann lítið að. Vetrarlogn gegnir sama hlutverki við að skilja árstíðina og bilið eða eyðan milli stafa og orða í tungumálinu; nauðsynlegur hluti af merkingu.

Þessi tvö allt að því andstæðu orð: Vetur og logn einkenna verkin á þessari sýningu. Öll vísa verkin á ár eða veðurfarslýsingar úr annálum. Kjarnyrtar lýsingar til að draga upp mynd af einu ári eða veðurfari almennt á Íslandi. Með orðunum Snævetur hinn mikli eru allar stundir fólks sem lifði árið 1078 felldar saman í eitt lýsandi heiti. Heitið kom fram í Resensannál á þeim tíma þegar orð voru dýr. Í þessum lygna einfaldleika býr einhver hrikaleg fegurð.
Svo býr líka annars konar, ógnvekjandi fegurð í eyðileggingarmætti veðursins og vetrarhörkum. Veður sem brjóta hvort heldur sem er: knerri eða kirkjur. Veður sem brýtur niður fólk. Þessi orð lýsa árinu/vetrinum 1778 í Espihólsannál: [B]jargræðisskortur … svo víða gat fólk naumlega fyrir megurðar sakir gengið að verkum sínum. Fjórar manneskjur dóu af hungri í Ólafsfirði, stöku manneskjur líka annars staðar … . Og þessi frásögn frá því í apríllok/maíbyrjun árið 1615 í Ballarárannál: Þá um vorið á tveggja postula messu voru 13 skiptapar á Breiðafirði af ógurlegu norðan áhlaupsfjúki; var smáviðri um morguninn, kom á um dagmálaleytið og varaði allt fram að miðnætti. … Í því áhlaupi drukknaði á Breiðafirði 80 manns.

Gagnvart þessum ósköpum: Veðurfarinu, sögunni, kaldlyndum vetrarhörkum og því sem fylgir að vera mannvera á þessari eyju, er samt einhver tilfinning fólgin í því hvernig orðin birta skilning á þessu, mynda ljós. Við að stækka þessar lýsingar upp finnur maður ekki bara fyrir smækkun yfir því hversu mikilfenglegt veðrið getur verið eða veturinn yfirþyrmandi. Maður finnur líka fyrir annarri tilfinningu: Að það er einhver ylur fólginn í að upplifa þessa aldagömlu tíð í gegnum hið einfalda, ljóðræna orðfæri.
Það er það sem orð eins og vetrarlogn minna á. Við upplifum veðrabrigði og vetrartímann ekki eingöngu utan dyra. Við upplifum þau að mestu leyti í huganum, í gegnum orð. Þessi hugsun skapar nokkurs konar stillu meðfram frosthörkunum. Þaðan er stutt í að minnast þess að árgæskan er líka til og að hún snýr aftur eftir harðindi.

jonahlif.is

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page