top of page

Listasafnið á Akureyri: Þrjár sýningaropnanir 2. júní

508A4884.JPG

miðvikudagur, 1. júní 2022

Listasafnið á Akureyri: Þrjár sýningaropnanir 2. júní

Fimmtudaginn 2. júní kl. 20 verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Gústav Geir Bollason – Sandtímasálmur um fölnandi jarðarblóm, Auður Lóa Guðnadóttir – Forvera og ljósmyndasamsýningin Svarthvítt. Boðið verður upp á listamannaspjall um Svarthvítt kl. 21 og er stjórnandi Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins.

Svarthvítt
Andstæður og ólíkir hlutir, viðhorf og sjónarhorn. Það sem skilur okkur að getur einnig tengt okkur saman. Fimm listamenn sem vinna með svarthvítar ljósmyndir eiga verk á þessari sýningu. Listamennirnir nálgast viðfengsefnin á ólíkan hátt og myndefnin eru einnig margvísleg: landslag, fólk, sögur, staðir og stemning. Andstæður og ógnir, rólegheit og væntumþykja og fjölmargar birtingarmyndir daglegs lífs, ævintýra, menningar, hins óþekkta og þess kunnuglega.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Agnieszka Sosnowska, Christopher Taylor, Katrín Elvarsdóttir, Páll Stefánsson og Spessi. Bakgrunnur þeirra er fjölbreyttur, sem kemur glögglega fram í verkunum. Á sama tíma er margt sem sameinar þau, þegar betur er að gáð.
Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík.

Sandtímasálmur um fölnandi jarðarblóm
Gústav Geir Bollason (f. 1966) fæst við teikningar og tilraunakvikmyndir auk skúlptúrverka. Hann rekur einnig óhefðbundið sýningarými á Hjalteyri við Eyjafjörð.
„Teiknimyndir og lifandi myndir af jurtaleifum, ryki og rusli. Einnig blendingshlutir sem jarðtengjast í hugmynd um mæli- og farartæki, sem og skjól eða holur sem verða til í skemmdu landslagi. Alls staðar er sandurinn, sýnilegur eða ósýnilegur: í steyptum veggjunum, sjóntækjunum, símanum, landfyllingunni. Hreyfingar blómanna í teiknimyndunum verða flöktandi í hröðuninni. Inn á milli mynda; ekkert. Tóm eða fjarvist, andleg.
Í lifandi vídeómyndum birtast gróðurleifar í uppstillingu er hreyfist mishratt í vélrænni hringrás ljóss og skugga þar sem allt líður hjá, hraðar og hraðar, og verður ógreinilegra. Hverfulir svipir í hverfandi tíma og rúmi. Samruni einskis og veruleikans. Skúlptúrar sem hluti af innsetningu lýsa kyrrstöðu. Verkin verða hugleiðing um hið sýnilega: hreyfingu, hröðun, tíma og eyðingu,“ segir Gústav Geir.

Forvera
Auður Lóa Guðnadóttir (f. 1993) er myndlistarmaður sem leikur sér á landamærum hins huglæga og hlutlæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Hún vinnur markvisst með hversdagsfyrirbæri og fígúratíft myndmál sem hún sækir í forna jafnt og nýliðna sögu. Auður Lóa leitast við að virkja sjálf listaverkin, ætíð þó sem fyrirbæri í sínu eigin félagslega umhverfi. Á sýningunni Forvera heldur hún áfram á þeirri braut, en heimilisbúnaður og skrautmunir frá ýmsum tímapunktum sögunnar eru að þessu sinni í brennidepli.

Auður Lóa útskrifaðist af myndlistasviði Listaháskóla Íslands 2015. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt, í samstarfi við aðra listamenn og tekið þátt í sýningum, s.s. Leikfimi í Safnasafninu, Djúpþrýstingur í Nýlistasafninu og Allt á sama tíma í Hafnarborg. Hún hlaut hvatningarverðlaun Myndlistarráðs 2018 fyrir sýninguna Díana, að eilífu sem hún tók þátt í og stýrði. Vorið 2021 opnaði hún sína fyrstu stóru einkasýningu í D-sal Listasafns Reykjavíkur, Já / Nei, sem samanstóð af yfir 100 skúlptúrum úr pappamassa.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page