top of page

Listasafnið á Akureyri: Þrjár sýningar opnaðar laugardaginn 4. desember

508A4884.JPG

þriðjudagur, 30. nóvember 2021

Listasafnið á Akureyri: Þrjár sýningar opnaðar laugardaginn 4. desember

Laugardaginn 4. desember kl. 12-17 verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Erling Klingenberg – punktur, punktur, punktur, Karl Guðmundsson – Lífslínur og yfirlitssýning á verkum úr Listasafni ASÍ, Gjöfin til íslenzkrar alþýðu.

Erling T. V. Klingenberg - punktur, punktur, punktur
Erling T. V. Klingenberg birtist oft sjálfur í listsögulegum tilvísunum í eigin verkum. Tilvísunum sem notaðar eru til að ná fram hlutlægri framsetningu og huglægum ímyndum. Vinnuaðferðir hans sveiflast á milli þess óþægilega og þess einlæga. Ágengar tilfinningar eru einnig algengt viðfangsefni verka hans.
Erling setur hugmyndina um listamanninn í óvænt og oft skoplegt samhengi, eins og endurspeglast í slagorðinu: „Það er erfitt að vera listamaður í líkama rokkstjörnu“ (“It´s hard to be an Artist in a Rock star’s body”). Þráhyggjukenndar tilraunir Erlings til að skilgreina hlutverk listamannsins í samfélagi „rokkstjörnunnar“ knýja hann til rannsókna á hvernig listamaðurinn gerir, en ekki hvað hann gerir. Það er því ferlið sem vekur áhuga hans, en ekki útkoman.
Erling T. V. Klingenberg stundaði nám í myndlist á Íslandi, í Þýskalandi og Kanada. Hann hefur sýnt víða hérlendis og erlendis og er einn af stofnendum Kling & Bang í Reykjavík.

Karl Guðmundsson – Lífslínur
Listferill Karls Guðmundssonar spannar nú rúmlega tvo áratugi. Hann hefur haldið einkasýningar frá 2000 og jafnframt tekið þátt í fjölda samsýninga.
Karl hóf nám í Myndlistaskólanum á Akureyri fimm ára gamall undir handleiðslu Rósu Kristínar Júlíusdóttur og útskrifaðist af myndlistabraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2007. Þau hafa unnið saman síðan. Í upphafi sem kennari og nemandi, en nú sem samstarfsfélagar í listinni. Verkin á sýningunni eru myndrænn afrakstur samtals þeirra og samleiks. Flest þeirra eru máluð á striga, gler og plexígler. Samstarfsfélagar á sýningunni eru myndlistarmennirnir Arna Valsdóttir og áðurnefnd Rósa Kristín Júlíusdóttir.
Karl er mál- og hreyfihamlaður, en tekst engu að síður að koma skýrt til skila þeirri næmu, listrænu tilfinningu sem býr innra með honum. Hann var útnefndur listamaður Listar án landamæra 2015.
Sýningarstjóri: Rósa Kristín Júlíusdóttir.
Listasafn ASÍ - Gjöfin til íslenzkrar alþýðu
Það þóttu stórtíðindi þegar athafnamaðurinn Ragnar Jónsson, kenndur við Smára, ákvað að færa Alþýðusambandi Íslands málverkasafnið sitt að gjöf sumarið 1961. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listaverkagjöf Ragnars – um 147 verk – lagði grunninn að Listasafni ASÍ og geymir verk margra af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar frá síðustu öld.
Ragnar Jónsson byggði safn sitt í kring um fastan kjarna, stór og kyngi mögnuð verk eftir fimm listmálara sem að hans mati voru þekktustu listamenn samtímans. Það voru þeir Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaugur Scheving og Þorvaldur Skúlason.
Á sýningunni er lögð áhersla á verk þessara listamanna, leitast er við að fanga þá meginhugsun sem lá að baki söfnunarstefnu Ragnars og spegla sýn hans á íslenska listasögu.
Sýningin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ.

Sýningarstjóri: Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page