top of page

Gallery Port: Marga hildi háð - Hildur Ása Henrýsdóttir

508A4884.JPG

fimmtudagur, 17. febrúar 2022

Gallery Port: Marga hildi háð - Hildur Ása Henrýsdóttir

Hildur Ása Henrýsdóttir - Marga hildi háð

Laugardaginn 19. febrúar næst komandi, kl. 16:00, opnar Hildur Ása Henrýsdóttir sýninguna Marga hildi háð. Sýningin stendur til fimmtudagsins 3. mars og er opið í Gallery Port frá þriðju- til laugardags frá kl. 12:00 - 17:00.

Sýningarstjóri er Linda Toivio

Á einkasýningu sinni setur Hildur Henrýsdóttir myndlistarmaður, sem búsett er í Berlín, fram vandræðalega einhliða ástarsögu. Með því að leita persónulegrar samþykktar á öllum röngu stöðunum – með einnar nætur kynnum, skelfilegum stefnumótum og vonlausri rómantík – þá opnast gáttir fyrir sársaukafulla vegi sjálfsfyrirlitningar, kvíða og þarfar fyrir utanaðkomandi samþykki. Í titli sýningarinnar; Marga hildi háð, sem skilja má sem svo að hún hafi háð marga bardaga, er fornafn listamannsins, Hildar, og merking nafnsins notað en Hildur þýðir bardagi á íslenskri tungu. Í nútímasamfélagi eru þessir bardagar myndlíkingar og vísa í samhenginu til innri óróa listamannsins, Hildar. Sjálfsævisöguleg verk hennar samanstanda af málverkum og skúlptúrum. Þau eru viðkvæm og óhefluð og endurspegla gjarnan skömm og eftirsjá. Þrátt fyrir að óttast höfnun umfram allt, þá kastar Hildur sér hvað eftir annað út í þráhyggjufulla leit að ást og afhjúpar þannig sammannlegt varnarleysi okkar: „Ég endurræsi Instagramið mitt til að sjá hvort þú hafir horft á söguna mína þann daginn. Mér finnst einhvernveginn eins og þú sért nálægt mér þegar þú gerir það. Ef þú gerir það ekki, þá finnst mér eins og þú hafir einhvernveginn yfirgefið mig."

Í hugdjarfri framsetningu Hildar á kvenlíkamanum má finna líkindi með nektarmálverkum enska myndlistarmannsins Jenny Saville, sem notar gjarnan sjálfa sig sem fyrirmynd í máluðum portrettum sínum. Auk þess að sýna persónulegan karakter sinn í málverkum þá gefa þær báðar nánast gróteska en þó sanna mynd af veruleika kvenna. Nakinn líkama Saville í mikilli yfirþyngd og einkennilegar líkamsstellingarnar sem Hildur málar sig í má sjá sem uppreisn: Ó, að konan leyfi sér að sýna sínar óþægilegu og ófögru hliðar. Það sem hér er verið að mótmæla er heildarsaga feðraveldisins, þeirri linsu sem horft er á kvenlíkamann í gegnum, þar sem karllægt sjónmálið tekur sér vald yfir því hverskonar líkamar eigi rétt á að vera til og koma fyrir sjónir annarra.

Þrátt fyrir að nekt sé rauður þráður í gegnum sýninguna, þá er líkaminn sýndur sem kynlaus eining og nektinni leyft að standa sem myndlíking fyrir varnarleysi og endurspeglun á sjálfinu. Öll listsköpun Hildar er rannsókn á sjálfinu, ósérhlífin vegferð í gegnum smánarlegar stundir og -hugsanir, sem leiða til aukinnar sjálfsvitundar, samhliða löngun eftir athygli og þrá eftir að öðlast meiri persónulegan þroska. Engu að síður veltir hún sér ekki uppúr sjálfsvorkunn, né ætlast hún til vorkunnar frá áhorfendum. Ákveðin óþægindi eða vanlíðan - bæði hennar eigin og áhorfandans - eru alltaf til staðar, þar eð hún skilur enga bresti eftir órannsakaða.

Konurnar í akvarellum Hildar eru týndar, hvikular og stundum skelfilegar, og sumar þeirra virðast tærast upp líkt og eftir langvarandi depurðartímabil. Með tómu augnaráði sínu horfa þær stundum ásakandi á áhorfandann. Svartar verur eða liðdýr koma endurtekið fyrir í verkum hennar og vekja upp frumstæðar tilfinningar viðbjóðs og vanþóknunar, þar sem verurnar tákna sjálfsskynjun listamannsins eða það sem er óæskilegt og ætti að eyða. Bjöguð sýn á veruleikann og ímynd líkamans birtist í nokkrum af verkunum á meðan pastel-nammilitirnir auka á hryllinginn. Nakinn líkami olíumálverksins sýnir engar áhyggjur af óaðlaðandi sjónarhornum eða gægjuþörf sem gæti skapast, heldur hallar sér aftur, langur hálsinn beygir sig líkt og af vantrú, kannski skynjar hann sannleikann í fyrsta sinn. Í öðru verki er geislavirkt óargardýr að forða sér út úr ramma myndarinnar, dýr sem skammast sín fyrir að vera þar en er ófært um að bægja hinum mörgu augum sínum frá áhorfandanum.

"Hvern þeirra ertu að tala um?"

„Þann sem ég hef verið skotinn í í tvö ár en sem elskar mig ekki til baka.“

Frásögnin í sýningunni Marga hildi háð nær út fyrir sögu af sorgmæddri stúlku í ástarsorg, þar sem hún snertir á þemum er sveiflast frá fjarstæðukenndum sögum af stefnumótamenningu samtímans, til frásagna af vanvirkum samböndum og geðheilbrigði. Þetta er einlæg og sjálfskaldhæðin, persónuleg frásögn af því að finnast maður vera á röngum stað, að vera aldrei nóg en finna samt kjarkinn til að halda áfram leitinni, sem hluti af kynslóð fólks er stundar rað-stefnumót, fólks sem allt gerir sér vel grein fyrir því að næstu kynni eru aðeins einu skjá-fletti í burtu. Þrátt fyrir að glíma við vanmáttarkennd, sem margir upplifa, þá verður Hildur meistari í að deila of miklu með öðrum og hunsar væntingar varðandi líkamlegt útlit og félagslega viðurkennda hegðun. Á yfirborðinu gæti virst sem leit að samþykkt frá öðrum sé helsta markmiðið, þegar sannast er að hún getur aðeins fundið þá samþykkt innra með sjálfri sér.

Gallery Port er styrkt af Reykjavíkurborg.
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.



Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page