Y Gallerý: Skugga-efni - Unnar Örn
miðvikudagur, 9. mars 2022
Y Gallerý: Skugga-efni - Unnar Örn
Næstkomandi laugardag þann 12. mars kl.15 mun listamaðurinn Unnar Örn opna sýninguna Skugga-efni í Y gallerý í Hamraborginni.
Hér að neðan má sjá texta um sýninguna og í viðhengi er mynd af listamanninum ásamt einu verki af sýningunni.
Verk Unnars á sýningunni í Y gallery verða til við kortlagningu á borgarlandinu – frásögn sem gefur mynd af staðháttum og ósýnilegum kostum þeirra. Verkin á sýningunni hverfast um samfélagslegt minni; hvernig minningar borgara eru flokkaðar, vistaðar og yfirheyrðar. Á tímum þar sem ólík öfl skapa og nýta myndefni og minjar, verður þetta alltumlykjandi borgarland hugmyndafræðilegur staður þar sem líf íbúanna framkallast. Svið þar sem saga og sjálfsmynd okkar er ákvörðuð og endursköpuð.
Manneskjan hefur lengi notast við kerfi sem skilgreinir umhverfi sitt út frá gæðum lands. Undir þá sundurgreiningu falla bæði hlunnindi og auðlindir sem og samgöngumannvirki, innviðir og opin svæði. Horfa má á borgina sem manngert landslag þar sem samkennd og geðshræring – minningar, reynsla, hughrif og skynjun – eiga sér sitt staðbundna svæði.
Við notum staðhætti til að kortleggja nærumhverfi okkar. Kortlagning og mæling verðmæta er talin gefa réttláta mynd af þeim lífsgæðum sem í landinu búa og jafnvel hafa forspárgildi um það óorðna. Staðfræðilegt umhverfi mannsins er hægt að aðlaga og breyta að hentugleika þeirra sem kortleggja. Við það myndbirtist nýtt uppkast eða teikning sem fær áhorfandann til að endurhugsa sviðsetningu veruleikans – þannig umbreytast mannvirki í rústir og hlunnindi í draumsýn.