Vonarland - Linda Guðlaugsdóttir
fimmtudagur, 5. september 2024
Vonarland - Linda Guðlaugsdóttir
Verið velkomin á opnun sýningarinnar, Vonarland, á föstudaginn kemur í Gallerí Göngum kl 16-18. Þar sýnir Linda Guðlaugsdóttir vatnslitamyndir sínar.
Linda Guðlaugsdóttir er Grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur haft vatnslitinn til hliðar í mörg ár og tekið ýmsa kúrsa. Fyrst hjá Pétri Behrens í Myndlistarskóla Reykjavíkur.
Linda sýndi tússteikningar í Anarkíu fyrir nokkrum árum. Litlar skissur unnar úti - aðallega fjöll.
"Ég geng mjög mikið úti í náttúrunni. Ég hef alltaf verið teiknari, notið þess að eiga stund í næði og teikna það sem fyrir augu ber eða skissa með vatnslitum. Stundum er farið út bara til að mála en oftast er lítið sett meðferðis í bakpokanum.
Stundum er veðrið ekki uppá sitt besta en það getur gefið heilmikið samt.
Ég hef kynnst því að vatnið í penslinum frýs og vatnsliturinn verður krapi á pappírnum, það er þá bara þannig.
Mér finnst ég vera að rannsaka, njóta og fljóta með.
Náttúran gefur mér stöðugt orku þegar ég er á göngu, það er fegurðin í hinu smáa og virðingin fyrir plöntum sem þurfa að hafa svo mikið fyrir því að lifa af, berjast fyrir sínu í óblíðum aðstæðum. Litadýrð, birtan, andstæður, form, hrikaleiki. Mér líður misjafnlega, ef aðstæður eru krefjandi get ég orðið afskaplega smá og lítil í mér. "