VITAR (Afmælissýning og útgáfuhóf)
fimmtudagur, 1. ágúst 2024
VITAR (Afmælissýning og útgáfuhóf)
Slunkaríki í Edinborgarhúsinu býður gesti velkomna á opnun afmælissýningar og útgáfuhófs kverinu „Vitar“ í tilefni af því að myndlistarmaðurinn og fyrrum stjórnarformaður Edinborgarhússins, Jón Sigurpálsson, hefði orðið sjötugur 2. ágúst n.k..
Fjölskylda Jóns hefur undanfarna mánuði tekið saman verk Jóns sem finna má í almannarýmum hér á landi og erlendis. Kverið er hannað af Einari Viðari Guðmundssyni Thoroddsen með textum eftir Halldór Björn Runólfsson, Björn Vigni Sigurpálsson og Kristínu Hagalín Ólafsdóttur.
Á sýningunni verða prentverk, ljósmyndaverk, veggverk og skúlptúrar eftir Jón ásamt skissum af listaverkum sem bæði urðu og urðu ekki að veruleika.
Viðburðurinn verður föstudaginn, 26. júlí kl.17.00 í Bryggjusal Edinborgarhússins, Ísafirði. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Jón Sigurpálsson (1954 - 2023) fæddist í Reykjavík 1954. Eftir sex ára myndlistarnám í Hollandi settist hann að, ásamt eiginkonu sinni Margréti Gunnarsdóttur, á Ísafirði þar sem hann bjó og starfaði ævina út. Jón sýndi bæði hér á landi og erlendis um áratuga skeið og eftir hann eru fjölmörg útilistaverk. Jón hefur í gegnum tíðina komið að ýmsu í þágu myndlistar s.s. reksturs á galleríi Slunkaríki á Ísafirði og setu í stjórn Myndhöggvarafélags Reykjavíkur.
Aðgangur ókeypis
Sýningin og útgáfan hlýtur stuðning úr sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæja, Uppbyggingarsjóði, Myndlistasjóði og frá Orkubúi Vestfjarða.