Una Björg Mangúsdóttir: SVIKULL SILFURLJÓMI í Listasafni ASÍ
fimmtudagur, 5. október 2023
Una Björg Mangúsdóttir: SVIKULL SILFURLJÓMI í Listasafni ASÍ
Sýning Unu Bjargar Magnúsdóttur í Kvíslartungu 28 í Mosfellsbæ opnar n.k. laugardag 7. október kl. 16.
Sýningin SVIKULL SILFURLJÓMI birtist okkur í rými sem er algerlega nýtt, skuggalaust í þeim skilningi að hér hefur ekkert gerst áður. Horn hússins eru enn skörp en munu mýkjast og rúnast í fyllingu tímans. Á sýningunni eru höggmyndir og myndverk sem bregðast ýmist beint við rýminu eða velta upp spurningum um tíma, gildismat, eftirlíkingar, speglanir og leiðir til að falla inn í umhverfi sitt. Grænt handrið ber með sér óljósa minningu um Samkomuhús í Súðavík, minningu sem erfitt er að henda reiður á, hún hangir rétt utan seilingar.
Hlutverk rauða litarins er að standa vörð um eldmóð og ástríðu.
Önnur verk sýningarinnar eru í hógværum eftirhermuleik, teningaborg, eldspýtnabréf, og stafli af silkipappír. Einfaldar einingar sem hver af annarri raðast saman. Þær herma hver eftir annarri á víxl þannig að erfitt er að greina hver hóf leikinn og hver speglar hverja. Með tíma og hægum breytingum mást út sérkenni hverrar um sig og til verður samfella, kannski felumynd.
Grár skuggi leitast við að öðlast lit, lögun, áferð og massa. Litlaus liðast hann um, hátt upp eftir veggjum og niður eftir gólfi. Horn eru ákjósanlegust. En grár er ekki litlaus, ekki í raun, litir ljóma í gráu.
Þessi sýning verður alltaf fyrsta lag hússins, á undan svefnlausum nóttum, hrúgum af þvotti og fermingarveislum. Brátt kemur innrétting, gólfefni, heimilistæki og aðrar nauðsynjar til að skapa heimili. Hér var aldrei sýning.
Sýningin er opin virka daga kl. 16 – 18 og kl. 14 – 18 um helgar. Hægt er að panta tíma fyrir hópa utan venjulegs opnunartíma.
Una Björg Magnúsdóttir er fjórði listamaðurinn sem velst til þátttöku í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu.
Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er um þessar mundir starfrækt án þess að hafa yfir eigin sýningarsal að ráða. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir, samtök og einstaklinga víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á bæði eldri og nýrri verkum.