top of page

Ummyndanir: Haraldur Jónsson

508A4884.JPG

fimmtudagur, 4. janúar 2024

Ummyndanir: Haraldur Jónsson

Billboard, sem rekur auglýsingaskjái í strætóskýlum og víða á höfuðborgarsvæðinu, efndi í haust til opinnar samkeppni um myndlistarverk í almenningsrými í samstarfi við Y gallery og Listasafn Reykjavíkur. Dagana 1.– 3. janúar 2024 verður Auglýsingahlé á yfir 500 stafrænum flötum Billboard um allt höfuðborgarsvæðið. Þessi tími verður helgaður sýningu á nýju verki eftir myndlistarmanninn Harald Jónsson sem valinn var úr hópi um 40 umsækjenda. Gaman er að segja frá því að sýning í þessari sýningarröð eftir listamanninn Hrafnkel Sigurðsson hlaut íslensku myndlistarverðlaunin fyrr á þessu ári.  

Reikna má með að yfir 80% höfuðborgarbúa muni sjá verk Haraldar dag hvern. 

Að sýningartíma loknum er verkið gefið í safneign Listasafns Reykjavíkur. Jafnframt er stefnt að því að verkið verði áfram sýnilegt í almenningsrými í borginni að loknu Auglýsingahléi Billboard.

 Verkið verður sýnt á yfir 500 skjáum um alla borgina, bæði skjáum í strætóskýlum og stórum skjáum (6x4m) við fjölfarnar götur.

Valnefnd var skipuð skipuð fulltrúum frá Y galleríi, Listasafni Reykjavíkur, Billboard og SÍM, þeim Olgu Lilju Ólafsdóttur, Aldísi Snorradóttur, Guðmundi Auðunssyni og Elísabetu Stefánsdóttur.

Haraldur lýsir verkinu Ummyndanir á þennan hátt: Verkið hverfist um ummyndanir kunnuglegra fyrirbæra úr tíðarandanum sem líða síkvikar um loftið þegar heimurinn er tímabundið opinn í báða enda um áramót.  Það er skuggsjá sem ofin er úr brotakenndum skilaboðum, hnitum,hugljómunum og óvæntum tilboðum úr undirvitundinni.

Verkefnið er frábær vettvangur fyrir myndlist í  almenningsrými. Því er ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa borgarbúum tækifæri á að njóta listar um alla borgina.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page