Umbúðalaust kraftaverk í Gallerí MUUR
miðvikudagur, 21. júní 2023
Umbúðalaust kraftaverk í Gallerí MUUR
Fimmtudaginn 22. júní klukkan 15.30 opna hjónin Finnur Arnar og Áslaug Thorlacius myndlistarsýninguna Umbúðalaust kraftaverk í Gallerí MUUR í Hagatúni 7 og á Bókasafni Hornafjarðar í menningarmiðstöðinni Nýheimum. Sýningin er hluti af sýningaröð sem Lind Draumland og Tim Junge, aðstandendur MUUR standa fyrir og byggist á pörum sem eru búin að vinna saman eða sitt í hvoru lagi að sinni myndlist.
Sýning Áslaugar og Finns ber yfirskriftina Umbúðalaust kraftaverk en þótt þau hafi stundum unnið saman að sinni myndlist starfa þau yfirleitt hvort í sínu lagi og það á við að þessu sinni. Finnur sýnir ljósmyndaverkið Kraftaverk í skúlptúrlandi, heimspekilegar vangaveltur um lífið og tilveruna sem hann skapaði í skúlptúrgarði Árna Páls Jóhannssonar í Rangárþingi ytra árið 2017. Áslaug sýnir verk úr plastumbúðum, en hún vinnur með það efni í umhverfinu sem grípur auga hennar hverju sinni.
Áslaug og Finnur hafa fylgst að frá árinu 1987 þegar þau hófu nám í Myndlista- og handíðaskólanum og hafa haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á rúmlega 30 ára löngum ferli sem myndlistarmenn. Samhliða sinni myndlist hefur Finnur starfað við hönnun, aðallega leikmyndahönnun fyrir leikhús en jafnframt fyrir söfn og sérsýningar af ýmsu tagi. Árið 2020 leikstýrði hann eigin leikverki, Englinum, í Þjóðleikhúsinu sem byggði á textum Þorvaldar Þorsteinssonar. Áslaug hefur sömuleiðis unnið ýmis störf samhliða myndlistinni en hún hefur verið skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík frá árinu 2014.