Tveir listamenn valdir til þátttöku í sýningu Nordic Culture Point haustið 2025

þriðjudagur, 24. júní 2025
Tveir listamenn valdir til þátttöku í sýningu Nordic Culture Point haustið 2025
Listamennirnir Ásgerður Arnardóttir og Solveig Thoroddsen hafa verið valdar til þátttöku í samsýningunni "Vi ses - See you - Nähdään" í Nordic Culture Point, í Helsinki, Suomenlinna, haustið 2025.
Þær verða fulltrúar SÍM á sýningunni sem fer fram samhliða ráðstefnu og málþingi á vegum Nordic Art Association þann 30. október til 2. nóvember 2025. Ásamt þeim munu aðrir listamenn frá norðurlöndunum taka þátt fyrir hönd félaga sinna á Álandseyjum, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi og Svíþjóð.
Ásgerður Arnardóttir (f. 1994) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2018 og MFA gráðu frá California Institute of the Arts 2023. Hún vinnur með fjölbreytta miðla svo sem innsetningar, málverk, stafræna prentun, ljóðlist, hljóðverk, myndbandsverk og skúlptúra. Meðal sýninga má nefna einkasýningnu hennar í SÍM salnum árið 2019 og Listasal Mosfellsbæjar 2020. Nýjustu sýningar hennar eru þátttaka í samsýningu Visions 2030: Earth edition og innsetning í RIP SPACE, en báðar sýningarnar voru haldnar í Los Angeles.
Solveig útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur verið virk í faginu allar götur síðan. Hún vinnur þvert á miðla og sækir í þá efnisbrunna sem henta og fanga hugann hverju sinni. Helstu viðfangsefni hennar tengjast umhverfis- og samfélagsmálum og eru gjarna með feminískum tilvísunum. Hún hefur meðal annars gefið út ljóðabækur og haldið einkasýningar víða, auk þess að hafa tekið þátt í samsýningum og hátíðum bæði hér heima og erlendis.