Tvær sýningaropnarnir í Listval - Jón B. K. Ransu & Sigurrós G. Björnsdóttir
fimmtudagur, 13. júní 2024
Tvær sýningaropnarnir í Listval - Jón B. K. Ransu & Sigurrós G. Björnsdóttir
Laugardaginn 15. júní kl. 15-17 opna tvær sýningar í Listval; ‘Parergon: Fjarveran sem skilgreinir málverkið’ með verkum eftir Jón B. K. Ransu og ‘Millibil’ með verkum eftir Sigurrós G. Björnsdóttur.
Jón B. K. Ransu | Parergon: Fjarveran sem skilgreinir málverkið
Í heimspeki á hugtakið „Ergon“ við um hinn framleidda hlut, eða það sem einkennir hann sem verk unnið af hendi manneskju. „Ergon“ listaverks er þar af leiðandi afrakstur listamannsins, eða sköpunarverk hans. Tónverk er afrakstur tónskálds, höggmynd er afrakstur myndhöggvara og málverk er afrakstur listmálara.
Hugtakið „parergon“ á hins vegar við um eitthvað sem fylgir verkinu án þess að vera hluturinn sjálfur.
Í bókinni „Sannleikurinn um málverkið“ veltir franski heimspekingurinn Jacques Derrida fyrir sér eðli málverks og horfir þá sérstaklega til „parergon“ þess. Derrida byrjar þessar vangaveltur sínar á því að vitna í franska listmálarann Paul Cézanne sem kvaðst hafa áhuga á merkingunni sem ekki er sýnileg í málverkinu, á sama tíma og hann sagðist fást við sannleikann í málverkinu. En í þessu viðhorfi Cézanne liggur hrópandi mótsögn. Hún er að hulin merking og sannleikur geta ekki verið eitt og hið sama nema maður horfi á merkinguna sem er ekki sýnileg í málverkinu sem sannleikann í málverkinu. Við getum því ekki greint málverk með því að horfa eingöngu á það sem er innan ramma þess og sleppt því sem er utan hans, eða öfugt, samkvæmt Derrida, því: „Takmörk þess sem er fyrir innan og utan, hljóta, á einhverjum skilum, að vera samtvinnuð“. Eða, til þess að taka þetta jafnvel skrefinu lengra, verður sannleikurinn sem er ósýnilegur í málverkinu fjarveran sem skilgreinir málverkið.
Um listamanninn:
Jón B. K. Ransu er myndlistarmaður menntaður í Hollandi á árunum 1990-1995. Þar af var hann í skiptinámi við NCAD (National College of Art and Design) í Dublín í eina önn. Þá tók Ransu þátt í ISCP (International Studio and Curatorial Program) í New York árið 2006 og hlaut þá styrk úr sjóði The Krasner Pollock Foundation.
Sigurrós G. Björnsdóttir | Millibil
Ég geng um og gægist inn á milli bila
Má ég kíkja?
Í sama bili, í því bili, tímabil, brúa bil, um það bil
Ég fálma og þreifa fyrir mér en gríp í tómt
Ég prófa aftur, gríp aftur í tómt
Allt pakkast þetta vel saman í ferðatösku
Ferðatöskusýning, vertu velkomin
Púsl, púst, pússerí, krass og púss
Þetta pússast saman á endanum
Hér og nú og hér og þar,
Hér um bil, fara bil beggja, í bili, bil á milli, bil
Það vantaði naglann svo skeifan tapaðist
Margt smátt gerir eitt stórt
Á milli, í millibili, á milli bila
Um listamanninn:
Sigurrós G. Björnsdóttir (f. 1991) býr og starfar í Antwerpen, Belgíu. Hún lauk meistaranámi í myndlist frá Royal Academy of Fine Arts Antwerp árið 2021 og BA námi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Sigurrós vinnur myndlist sína í blandaða miðla, en þó undanfarið með áherslu á skúlptúra. Hún blandar eigin reynsluheimi, áhrifum frá nærumhverfi sínu og skáldskap og miðlar með þeim ólíkum frásögnum. Sigurrós hefur sýnt verk sín í Belgíu, Íslandi, Hollandi og Þýskalandi.