top of page

Tvær sýningaropnanir í Listvali um helgina

508A4884.JPG

fimmtudagur, 23. maí 2024

Tvær sýningaropnanir í Listvali um helgina

Laugardaginn 25. maí opna í Listval sýningarnar Flauelstjald, með verkum eftir Helgu Páleyju 
og Púls með verkum eftir Hólmfríði Sunnu Guðmundsdóttur.


Helga Páley | Flauelstjald

Teikningin hefur verið leiðandi í verkum Helgu Páleyjar frá upphafi. Hún kannar mörk miðilsins með því að yfirfæra teikninguna á striga og aðra miðla. Á sýningunni Flauelstjald má sjá verk á pappír og striga þar sem teikningin er eins og áður, undirstaða verkanna. Tjaldið sem er leiðandi myndefni í verkunum er táknmynd hugmyndar eða fyrirbæris sem manni langar að kanna meira, þegar tjaldið opnast þá opnast heimur áferðar, lita, forma og óræðra hluta sem áhorfandinn fær að ráða í. 

Helga Páley Friðþjófsdóttir (f. 1987) býr og starfar í Reykjavík. Hún Lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Frá útskrift hefur Helga verið framkvæmdastjóri listahátíðarinnar Ærings á Rifi 2012. Frá árunum 2013 til 2015 var Helga partur af Kunstschlager hópnum og tók þátt í að reka gallerí við Rauðarárstíg 1 og síðar í Listasafni Reykjavíkur. Síðustu ár hefur Helga sýnt á fjölmörgum stöðum og þar má nefna Listasafn Reykjanesbæjar, Ásmundarsal og Safnasafninu á Svalbarðseyri. Teikningin hefur lengi verið henni hugleikin og spilar hún stóran sess í hennar listsköpun. Með teikningu hripar hún hugmyndir á blað, gefur þeim tíma til að gerjast áður en þær færist yfir á striga eða í þrívítt form.


Hólmfríður Sunna Guðmundsdóttir | Púls

Á sýningunni Púls tekst Hólmfríður Sunna á við síkvikt eðli og óróleika náttúrunnar, þar sem allt springur út og að lokum dofnar. Ryþmískar og léttar pensilstrokur endurspegla reglubundið flæði og púls sköpunarverksins. Rík efniskennd og áferð eru áberandi en þau gefa óljósa tilfinningu hvort um sé að ræða hold, landslag, örheim eða kynjaverur. Olía og viðkvæm efni eins og kol og þurrpastel flæða saman en það er mikilvægur partur af sköpunarferlinu að efnin vinni sjálfstætt og renni saman á óvæntan hátt. Ef vel er að gáð má sjá glitta í fínlega teikningu eða kol undir málningunni og í gagnsæinu verður áhorfandinn var við endurtekin og iðandi mynstur sem liggja undir niðri. Mjúkir litir og lífræn form lokka áhorfandann inn í óræðan ævintýraheim þar sem átök brjótast upp á yfirborðið.

Hólmfríður Sunna Guðmundsdóttir (f. 1988) er myndlistarmaður búsett í Reykjavík. Hún lauk BA- gráðu í heimspeki árið 2015 frá Háskóla Íslands og tveggja ára diplóma námi í listmálun við Myndlistarskóla Reykjavíkur vorið 2024. Sýninigin Púls er fyrsta einkasýning Hólmfríðar Sunnu.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn

SAMBAND
ÍSLENSKRA
MYNDLISTARMANNA

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Ísland

Skrifstofan er opin virka daga frá kl 12 -16

Sími/ Tel.: +354 551 1346
Email: sim@sim.is

Kt. 551283-0709

Samfélagsmiðlar

  • Facebook
  • Instagram
logo_white_edited.png

© Samband íslenskra myndlistarmanna, 2024

bottom of page