top of page

Tímamót hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík

508A4884.JPG

fimmtudagur, 26. september 2024

Tímamót hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík

Nú standa yfir flutningar hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík sem hefur verið til húsa á Hringbraut 121, í JL-húsinu frá árinu 1998. Hann stefnir austur yfir læk, á hornið á Laugavegi og Rauðarárstíg, í sama húsnæði og hýsti skólann í fáein ár í lok áttunda áratugarins. Þráðurinn verður því tekinn upp á gömlum slóðum, í hjarta borgarinnar.

Skólinn hefur frá upphafi byggt á miklu hugsjónastarfi listelskandi fólks og getur rakið sögu sína allt aftur til svokallaðs Málaraskóla sem var settur á laggirnar af Félagi íslenskra frístundamálara (FÍF) árið 1947. Skólinn var þó ekki formlega stofnaður fyrr en ári seinna eða árið 1948 undir heitinu Skóli Félags íslenskra frístundamálara og starfseminni fljótlega fundinn samastaður í Víðishúsinu á Laugavegi 166. Tveimur árum síðar varð skólinn að sjálfseignarstofnun óháð FÍF og var öll vinna í tengslum við skólann unnin í sjálfboðavinnu nema sjálf kennslan.

Skólinn hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt á þeim tæpu áttatíu árum sem hann hefur verið starfræktur. Hann var frá upphafi skilgreindur sem alþýðuskóli, ekki síst fyrir börn, enda hafa barnanámskeið alltaf verið kjarnaþáttur í starfsemi hans. Raunar býður skólinn upp á ríkulegt úrval námskeiða fyrir fullorðna svo allir aldurshópar geta fundið sköpunagleði sinni farveg undir leiðsögn úrvalskennara úr hópi starfandi listamanna.

Þegar Myndlista-og handíðaskóli Íslands var lagður niður og Listaháskóli Íslands stofnaður skapaðist þörf fyrir markvisst undirbúningsnám fyrir háskólanám í myndlist og hönnun. Þá var stofnuð fornámsdeild við skólann og í dag eru starfræktar sjö mismunandi námsleiðir í dagskóla, m.a. tveggja ára stúdentsbraut, fjórar viðbótarnámsbrautir og eins árs nám fyrir nemendur með þroskahömlun.

Skólinn er einstakur í sinni röð og hefur alla tíð byggt á hugsjóninni um að bjóða öllu áhugafólki um myndlist vandað nám við hæfi hvers og eins. Þótt umgjörð og regluverk utan um skólahaldið sé breytt er kjarninn sá sami og hjartað á sínum stað.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page