SVAVS - Samhengi
fimmtudagur, 30. maí 2024
SVAVS - Samhengi
Á þessari sýningu ætlar Svava Dögg að leyfa þér að skyggnast inn í hugarheim hennar í gegnum málverk og texta. Hún var að klára sitt fyrsta ár í Listaháskólanum þar sem hún lagði mikla áherslu á tilraunastarfsemi og sjálfsskoðun.
Á þessu ári komst hún að því að konseptlist höfðaði einstaklega mikið til hennar sem og að nýta rödd sína sem listamaður til að vekja athygli á ákveðnum málefnum. Fyrir þá sem ekki vita þá snýst konseptlist í stuttu máli fyrst og fremst um hugmyndina, það er að segja, það sem listamaðurinn vill koma á framfæri. Hluturinn sjálfur, eða það sem áhorfandinn sér skiptir minna máli en skiptir þó að sjálfsögðu máli.
Málverkin á þessari sýningu voru ekki fyrirfram ákveðin, þau bara gerðust einhvern vegin og lítur Svava Dögg svo á að hún sé aðeins verkfæri hugsana sinna en hún veit yfirleitt ekki hvað hún er að mála, eða hvaða skilaboð liggja í verkunum fyrr en þau eru vel á veg komin og stundum ekki fyrr en verkin eru alveg tilbúin og komin upp á vegg. Þá tala þau til hennar og hún skrifar það niður sem hún heyrir og sér.
Mannúðarmál hafa alla tíð verið henni hugleikin. Síðastliðin ár hafa verk hennar einna helst snúist um geðheilsuna en núna virðast alheimsmálin, þó einkum stríðið á vesturbakkanum og innflytjendamálin vera henni ofarlega í huga.
Titillinn, samhengi, er vísun í það að verkin hangi öll saman í ákveðnu samhengi. Samhengi skiptir rosalega miklu máli, sem og kommur.
Sýningaropnun verður 30. maí frá 18:00-20:00 og allir velkomnir!
Aðrir opnunartímar:
Föstudagur 31. maí 13:00 - 18:00
Laugardagur 1. júní 12:00 - 17:00
Sunnudagur 2. júní 14:00 - 17:00
Viðburðurinn er styrktur af Menningar og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar.