Sumarnámskeið í Viðey - VIÐEY FRIÐEY

þriðjudagur, 18. apríl 2023
Sumarnámskeið í Viðey - VIÐEY FRIÐEY
VIÐEY FRIÐEY er spennandi vikunámskeið fyrir 8-9 ára börn (fædd 2014 og 2015) sem fer fram í júní í hinni friðsælu náttúruperlu Viðey.
Börnin nema land, upplifa sögu og náttúru eyjarinnar í gegnum skapandi og listrænt starf innan- og utandyra. Þau fá að kynnast gamla skólahúsinu í Viðey sem var hluti af þorpinu sem hvarf. Í nýuppgerðu skólahúsinu er sérlega góð aðstaða til tilrauna og rannsókna á gersemum náttúru eyjunnar sem verða notaðar sem efniviður í myndlistarsköpun og leiki. Unnið verður sérstaklega með friðarupplifun í gegnum listir, leiki, markvissa útiveru og hreyfingu.
Markmið námskeiðsins er að hver og einn þátttakandi fái að njóta sín á eigin forsendum undir handleiðslu fagfólks. Leitast verður við að skapa vingjarnlegt umhverfi fyrir börnin án snjalltækja, þar sem þau munu snjóta sín í hópi jafningja.
Kennarar á námskeiðinu er þær Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir og Björk Bjarnadóttir.
Fjöldi barna er takmarkaður á námskeiðinu, að lágmarki 12 börn og að hámarki 15 börn. Skráning á námskeiðin fer fram á sumar.vala.is.