Styrmir Örn Guðmundsson: Ókominn slóði

föstudagur, 12. desember 2025
Styrmir Örn Guðmundsson: Ókominn slóði
Næstkomandi sunnudag kl. 11 opnar Styrmir Örn Guðmundsson einkasýninguna Ókominn slóði í safnaðarheimili Neskirkju. Styrmir mun jafnframt flytja gjörning á opnuninni þar sem hann spilar jólalög á stálpönnu, en stálpanna er ásláttarhljóðfæri frá Trínidad og Tóbagó. Sýningin stendur frá 14. desember til 2. mars 2026.
Styrmir sýnir flennistórar teikningar af gáttum að veraldlegum víddum, áþreifanleg og sjónræn upplifun, vitnisburður um takmarkalausa möguleika mannlegs ímyndunarafls.
Í teikningum sínum reynir Styrmir ekki að teikna umhverfið eins og hann sér það heldur fer á hugarflug um það svo úr verður umhverfi eins og úr öðrum heimi. Svartar, litríkar og andlegar myndirnar umlykja áhorfandann svo það er líkt og hann geti gengið inn í myndirnar. Þegar pensilstrokur og bleklínur Styrmis dansa um pappírinn enduróma þær hrynjanda tilverunnar sjálfrar – síbreytilegar, ógnvænlegar og hrífandi.
Líkt og í fyrri verkum sínum segir Styrmir sögur með teikningunum sem eru gjarnan kosmískar, yfirskilvitlegar og jafnvel dularfullar. Styrmir er stórhuga sagnamaður og ólíkindatól sem veltir fyrir sér hinu fjarstæðukennda í lífinu sem og dauðanum. Listamaðurinn lítur á gáttirnar sem myndbirtingu upplifana fólks sem hafa komist í nálægð við dauðann.
Styrmir (1984) iðkar ýmis form listar. Einkum og sér í lagi teikningu, skúlptúr, gjörning og tónlist. Hann nam við Gerrit Rietveld Akademie í Hollandi á árunum 2005-2012. Nú býr hann á Íslandi en á árunum 2005-2024 bjó hann í Amsterdam, Varsjá og Berlín.
Kynningarmynd:
Gátt II
blek á pappír
225 x 150 cm
2013


