Styrkir Reykjavíkurborgar til myndríkrar miðlunar 2025 - Opið fyrir umsóknir til 22. maí

fimmtudagur, 8. maí 2025
Styrkir Reykjavíkurborgar til myndríkrar miðlunar 2025 - Opið fyrir umsóknir til 22. maí
Ert þú með bók, kvikmynd, sjónvarpsefni, vefsíðu eða aðra miðlun í undirbúningi sem tengist sögu Reykjavíkur með einhverjum hætti og vilt nota ljósmyndir úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur í verkefninu? Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til myndríkrar miðlunar og er umsóknarfrestur til 22. maí 2025. Styrkurinn felst í niðurgreiðslu á kostnaði vegna opinberrar birtingar mynda í varðveislu Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Sótt er um styrkinn á Mínum síðum Reykjavíkurborgar í nafni einstaklings, samtaka eða fyrirtækis.
Upplýsingar má nálgast hér: https://reykjavik.is/styrkir-fyrir-myndrika-midlun
Markmið Reykjavíkurborgar með styrknum er stuðla að miðlun menningararfleifðar og sögu Reykjavíkur. Hópur skipaður þremur sérfræðingum á menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar fer yfir umsóknir og gerir tillögu til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs um úthlutun.
Í umsókninni er kallað eftir upplýsingum um verkefnið, framleiðanda þess og höfunda, auk áætlaðrar útgáfudagsetningar. Einnig skal fylgja verðáætlun Ljósmyndasafns Reykjavíkur vegna fyrirhugaðra afnota á ljósmyndum sem bera birtingagjald skv. gjaldskrá safnsins. Styrkurinn nær ekki til virðisaukaskatts af notkun myndefnis.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa menningarborgarinnar á menningar- og íþróttasviði í gegnum netfangið menning@reykjavik.is eða í gegnum síma 411 1111