Stefán V. Jónsson (Stórval): Fjallið innra
fimmtudagur, 15. ágúst 2024
Stefán V. Jónsson (Stórval): Fjallið innra
Sýningin Fjallið innra með verkum Stefán V. Jónssonar, sem bar listamannsnafnið Stórval, opnar fimmtudaginn 15. ágúst í i8 Gallerí og mun standa til 5. október. Stórval, sem er einna helst þekktur fyrir málverk sín af Herðubreið, átti afkastamikinn feril og beinskeyttur stíll hans fangaði hjörtu fólks um allt land.
Til eru sögur af malarbónda sem var goðsögn í lifanda lífi. Sveitamaður, kvikur í hreyfingum, flakkandi um miðbæ Reykjavíkur á reiðhjóli með málverk á bögglabera. Bóndi í borg, sem heyjar á hringtorgum, spariklæddur með kaskeiti. Ríðandi á hesti inn í sjoppu að spyrja til vegar. Litríkur persónuleiki, laus við yfirborðsmennsku, þyljandi furðusögur af dýrum og fólki á Möðrudalsöræfum.
Öræfin voru fyrirheitna landið. Víðernin traustur félagi sem hlustað var eftir – fjöll, dalir, urð og grjót – ljóslifandi í minningunni. Stefán frá Möðrudal var kominn til borgarinnar en til reginfjalla sækir andinn sem á ekki afturkvæmt. Sögurnar af fjöllum gleymast nú hver af annarri, en málverk Stefáns halda stöðugt áfram að framkalla næmar sögur af lífi í afdal og samtímis mynd af listamanni sem varð til á malbikinu.
Í fjölskyldu Stefáns rúmaðist skapandi hugsun. Framkvæmdagleði og ríkur sagnaarfur einkenndu foreldra hans og þaðan runnu þeir listrænu hæfileikar sem þessi brottflutti bóndi fann skyndilega og óvænt fyrir þegar í borgarlandið umlukti hann. Þar verður listamaðurinn til án fyrirmyndar. Listamaður sem sýnir verk sín undir berum himni, á götum og torgum, eins og tíðkast erlendis, og leikur á harmonikku fyrir vegfarendur sem ganga fram hjá. Bóndi án bústofns, listmálari án sálufélaga.