Útgáfuhóf bókverskins TÓM eftir Spessa

fimmtudagur, 11. september 2025
Útgáfuhóf bókverskins TÓM eftir Spessa
Verið öll hjartanlega velkomin í Svavarssafn á Höfn, föstudaginn 12. september kl.17:00 til að fagna útgáfu ljósmynda-bókverks Spessa, TÓM, sem kom út fyrir skemmstu. Spessi verður viðstaddur og mun fjalla um verk sín á yfirstandandi sýningu sinni, TÓM, í Svavarssafni, í samtali við Birtu Guðjónsdóttur safnstjóra Svavarssafns.
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, mun jafnframt leiða gesti inn í þann upplifunarheim sem list Spessa sýnir.
Bókverkið TÓM er gefið út af KIND listbókaútgáfu í Reykjavík.
Í bókverkinu TÓM varpar Spessi fram sjónarhornum á einangrun og víðáttu í Öræfum, þar sem hann hefur búið um tveggja ára skeið. Okkur er veitt innsýn inn í einstakan, myndrænan upplifunarheim hans í þessu sérstaka umhverfi, þar sem hann finnur nýja nálgun, annarskonar sýn og á í samtali við umhverfið og um leið sjálfan sig.
Um upplifun sína af búsetu í Öræfum segir Spessi flutninginn þangað frá fjölmennari borgum og bæjum hafa verið töluverða áskorun og að hrár kraftur náttúrunnar kalli á auðmjúka nálgun, þar sem „vindurinn og tómið haldast í hendur og vísa í tómið sem ég horfði inn í, þennan gráa sudda sem varð dekkri með hverjum deginum … tómið sem ég upplifði í sálinni við að flytja svona afskekkt. Nú er verkið tilbúið, ég sé sjóndeildarhringinn; hinn eiginlega og sjóndeildarhringinn í sjálfum mér.“
Ófeigur Sigurðsson skrifar inngangstexta bókverksins.
João og Fernanda hjá Kakkalakki Studio eru hönnuðir og Prentmiðlun prentar.
SPESSI er íslenskur samtímaljósmyndari fæddur árið 1956 á Ísafirði. Hann er einn af mikilvægustu sjónrænu annálahöfundum Íslands og hefur þróað mjög persónulegan tón í verkum sínum á um 35 ára ferli, þar sem hann fangar raunveruleikann á hráan og afdráttarlausan hátt.
Ljósmyndaverk hans draga gjarnan upp mynd af því umhverfi er skapar ramma utanum tilveruna á hverju tímabili fyrir sig, portrett af einstaklingum sem gjarnan eru lítið sýnilegir en hafa mikilvægum hlutverkum að gegna í gangverki samfélagsins, hins manngerða heims – nærveru mannsins og fjarveru – þar sem hávaði, þögn og tóm mætast.
Þekkt eru ljósmyndaverk Spessa af hversdagslegum fyrirbærum á borð við bensíndælur í heildarverkum hans Bensín (1999) og íbúðablokkum í verki hans 111 (2018), sem hverfast um lífið í samnefndu póstnúmeri í Breiðholtinu í Reykjavík, svo og fólk er tengist þeim aðstæðum og hefur Spessi nefnt að hann nálgist viðfangsefni sín sem hlutlaus áhorfandi.
Bókverk Spessa, TÓM, verður til sölu í Svavarssafni á meðan sýningu hans stendur, til og með 4. otóber 2025.
Forsölueintök verða afhent og listamaðurinn áritar bók sína föstudaginn 12. september.
Bókin verður á sérstöku tilboði.
Verið öll hjartanlega velkomin.
Hægt að kaupa bókina á forsölubilboði á www.kindutgafa.is
Boðið verður upp á léttar veitingar.
Sýning Spessa, TÓM, í Svavarssafni er opin til og með 4. október 2025


