Smiðsbúðin: Smiðjuskógur - Þórarinn Blöndal
fimmtudagur, 28. apríl 2022
Smiðsbúðin: Smiðjuskógur - Þórarinn Blöndal
Laugardaginn 30. apríl klukkan 15:00 opnar Þórarinn Blöndal myndlistarmaður sýninguna Smiðjuskógur í Smiðsbúðinni í Reykjavík.
"Áform um vegamyndina “Road Thriller” eru enn í fullum gangi. Handrit er að mótast og hefur fundið sér stað, Smiðjuskógur í Krókdal. Ferðin var undirbúin í þaula og en voru þó furðu lítil drög að leiðum. Hver staður færði af sér nýja ferð, þar var gaumgæft eftir frummyndum, leitað eftir slóðum og myndvísum sem breyttu för. Kveikjan er gömulkunn árátta og þrá eftir pósíunni. Þessi drög að handriti sem urðu til í Smiðjuskógi verða nú til sýnis í Smiðsbúðinni".
Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 1966. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og Rotterdam, Hollandi. Hann hefur tekið þátt í fjölda mörgum sýningum bæði hér heima og erlendis. Hann var meðal stofnenda Verksmiðjunnar á Hjalteyri en þar er rekin Listamiðstöð í gömlu Síldarverksmiðjunni. Þar eru skipulagðar myndlistarsýningar og ásamt fjölbreyttri dagskrá viðburða.
Myndheimur Þórarins er ferðalag, sem hófst með því endurskapa eigin list í nýjum uppdiktuðum kringumstæðum, í draumi um vinnustofu. Smátt og smátt hafa vinnustofurnar fengið sjálfstætt líf, þetta eru óræð rými sem lúta eiginleikum skáldskaparins rétt eins og verkin sjálf og á þessu ferðalagi skrásetur Þórarinn handritið að “Road Thriller” sögunni, um leitina að póesíunni. Að þessu sinni stoppar listamaðurinn við í Smiðsbúðinni til að sýna drög að handriti leitarinnar.
Smiðsbúðin er verkstæði og vinnustofa Gullsmiðana Erlings Jóhannessonar og Helgu Óskar Einarsdóttur. Samhliða skartgripasmíðinni hafa frá opnun, ýmsir myndlistarmenn sýnt verk sín í fallegu rými vinnustofunnar. Eins og Guðjón Ketilsson og Kristinn E. Hrafnsson.
Sýningin opnar laugardaginn 30. apríl Kl 15:00 og er opin a´opnunartíma verslunarinnar.