top of page

Sláturhúsið Menningarmiðstöð: Hnikun - Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannsdóttir

508A4884.JPG

föstudagur, 2. september 2022

Sláturhúsið Menningarmiðstöð: Hnikun - Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannsdóttir

Laugardaginn 3. september kl. 14:00 opnar myndlistarsýningin Hnikun í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð með verkum eftir Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur. Hnikun er fyrsta sýningin sem opnar í Sláturhúsinu eftir gagngerar endurbætur.

Á sýningunni Hnikun birtast okkur verk sem unnin eru út frá sögu Sláturhússins. Textaverk, ljósmyndir, skúlptúrar, textílverk og vídeó hverfast um formgerð sem liðast um rýmið. Verkin kallast á við þá vinnslulínu sem áður fyllti salinn og í gegnum þau fáum við enduróm þess sem var. Á sýningunni tvinnast saga og umgjörð slátrunar saman við hugmyndir um hvernig við skynjum, hvernig við minnumst þess liðna og viðleitni okkar til að skapa kerfi úr umhverfi okkar. Hnikun markar enduropnun Sláturhússins eftir umfangsmiklar umbætur til að styðja við hlutverk hússins sem menningarmiðstöð. Titill sýningarinnar vísar í hvernig eitt hnikar fyrir öðru – umbreytingu í samfélagi og starfsemi.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017. Hún lauk BA gráðu frá sama skóla árið 2007, en hafði áður lokið BA gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum. Í listsköpun sinni fæst Ingunn við ýmsa miðla eins og málverk, vefnað og innsetningar. Verk hennar fela oft í sér gagnvirkni eða beina þátttöku og teygir hún þannig verkin inn í opið kerfi þar sem þau lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins. Verk Ingunnar Fjólu hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum, svo sem í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Berg Contemporary, alþjóðlega tvíæringnum Prague Biennale, Cuxhavener Kunstverein auk fjölda annarra. Af nýlegum sýningum má nefna Ekkert er víst nema allt breytist í Listasafni Íslands.

Þórdís Jóhannesdóttir (f. 1979) nam myndlist við Listaháskóla Íslands; hún lauk B.A. námi árið 2007 og M.A.námi árið 2015. Þórdís hefur sýnt víða hérlendis, bæði sín verk og í samstarfi við Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur undir heitinu Hugsteypan. Af nýlegum sýningum mætti nefna Far í Hafnarborg og Afrit í Gerðarsafni, sem báðar voru hluti af Ljósmyndahátið Íslands 2020. Þrátt fyrir að Þórdís Jóhannesdóttir hafi lengi notað ljósmyndina sem sinn miðil telst hún seint til hefðbundinna ljósmyndara. Ljósmyndir eru grunnurinn sem hún svo brýtur upp á, teygir og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna. Þórdís sækir myndefni sitt í hversdagsleikann; efnistökin eru form og litafletir sem hún fangar á ferðum sínum, oftar en ekki í myndlist annarra en einnig í arkitektúr og náttúrunni.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page