Skógur og sjór: María Sjöfn og Sabine A. Fischer
fimmtudagur, 30. maí 2024
Skógur og sjór: María Sjöfn og Sabine A. Fischer
Opnun er laugardaginn 1. júní kl16:00-19:00. Sýningin er opin alla daga 2. til 8. júní kl14:00-18:00 í Grafíksalnum, Íslensk grafík, Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17. Inngangur bakatil, hafnarmegin.
Á þessari sýningu mætast María Sjöfn og Sabine og flétta saman hugðarefnum sínum. Hér eru þær að fjalla um skóginn og sjóinn og hvernig við skynjum og upplifum þessi fyrirbæri út frá okkar eigin reynslu og þekkingu. Ofnýting skóga og sjávar af mannavöldum er vel þekkt. Með vísan til þessa er verið að kortleggja einskonar innra landslag skynjunar á hinu ytra landslagi. Marglaga myndmálið sem skapast í ferlinu getur mögulega velt upp nýjum sjónarhornum á þeim loftslagsbreytingum sem við erum að upplifa.
Sýnendur:
María Sjöfn
María Sjöfn vinnur í mismunandi miðla og oft með náttúruleg fyrirbæri og skoðar samband manns og umhverfis sem taka á sig mynd sem innsetningar, í þrívíð form sem skúlptúrar, video-innsetningar og teikningu.
Í verkum sínum fjallar hún um fjölþætta skynjun umhverfisins með innsýn í innra og ytra samhengi rýmis og efnis. Hún er að kanna snertifleti manns og náttúru á gagnrýninn hátt í marglaga þekkingarsköpun og skoðar myndmálið sem á stundum veitir ný sjónarhorn.
Hún lauk M.A. gráðu frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2020 og M.A. diplóma gráðu í listkennslufræðum árið 2014 frá sama skóla.
Sabine A. Fischer
Í verkum sínum vinnur Sabine A. Fischer í ferli í endurheimt að ummerkjum upprunans. Hún endurskapar efni og viðfangsefni sem hafa orðið ósýnileg og gleymd vegna verðmætakerfa og hraða lífsins yfir á myndmál sem reynir að endurheimta sambandið við náttúruna og núið. Hún reynir stöðugt að ögra raunveruleikaskyninu með því að kanna mörkin milli veruleika og skáldskapar til að endurheimta nýja reynslu og upplifun.
Verk hennar byggja á tilraunakenndri og leiðandi nálgun þar sem hún sameinar eigin reynslu, spurningar og hugsanir við viðfangsefnin. Verk hennar taka á sig mynd sem skúlptúrar, innsetningar, uppákomur, inngrip, þrykk, hljóð- og videoverk.
Sabine er með MfA frá Listaháskóla Íslands (2020), framhaldsgráðu í listkennslu (2019) og diplómagráðu í myndlist (2012) frá Myndlistarakademíunni í Leipzig (Þýskalandi) og B.A. í nútíma- og samtímasögu frá Tækniháskólanum í Karlsruhe (Þýskalandi).