top of page

Sigurðar Ámundasonar: ÚTHVERFAVIRK

508A4884.JPG

fimmtudagur, 6. nóvember 2025

Sigurðar Ámundasonar: ÚTHVERFAVIRK

Verið velkomin á sýningu Sigurðar Ámundasonar ÚTHVERFAVIRKI í vitanum og vitavarðarhúsinu í Gróttu á Seltjarnarnesi

Opnunarhátíð laugardaginn 8. nóvember stendur á meðan lágsjávað er - hefst kl. 12:30 og varir til kl. 16. Sunnudaginn 9. nóvember verður opið á fjöru kl. 13 – 17.

Sýningin verður opin miðvikudaga – sunnudaga þegar sjávarföll leyfa. Opnunartími er breytilegur frá degi til dags og verður auglýstur sérstaklega á heimasíðu safnsins www.listasafnasi.is.

Listamaðurinn verður á staðnum allan tímann og fær marga góða og skapandi gesti til sín í útlegðina í Gróttu. Hver viðburður fyrir sig verður auglýstur sérstaklega, uppákomurnar eru fjölbreyttar s.s. tónlist, gjörningar, upplestur, samtöl og fleira.

Sýningin er skipulögð í samvinnu við Seltjarnarnesbæ og Menningarhátíð Seltjarnarness sem haldin er í nóvember með fjölbreytta dagskrá.

Sigurður Ámundason er fæddur 1986 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2012. Meðal nýlegra verkefna og sýninga má nefna Rómantísk gamanmynd, leikrit unnið í samstarfi við Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjönu Dís Aldísar Razoumeenko (2025). After The Sun: Forecasts From the North í Buffalo AKG Art Museum (2024). Hvað er hvað var hvað verður - Ars Longa, Djúpavogi (2023), Billboard 450 led auglýsingaskjáir á höfuðborgarsvæði – Rétthermi (2023), Hið ósagða, leikrit (handritshöfundur, leikstjóri, leikari) (2022), What´s Up Ave Maria? Í Hafnarborg (2022), og Raw Power – Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsi (2021).

Sigurður er óhræddur við að prófa sig áfram með mismunandi listform. Hann hefur unnið jafnt og þétt að því að þróa sitt eigið myndmál að mestu óháð ríkjandi straumum og stefnum. Efnisnotkunin er nokkuð óvenjuleg og hann fer óttalaus út í almenningsrýmið og fangar þar athygli með einstöku myndmáli.

Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er um þessar mundir starfrækt án þess að hafa yfir eigin sýningarsal að ráða. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir, samtök og einstaklinga víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á bæði eldri og nýrri verkum.

Sigurður Ámundason er fimmti listamaðurinn sem velst til þátttöku í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu. Safnið kallar reglulega eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja taka þátt í sýningarröðinni og eitt verkefni valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem taka þátt og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum.

Staðirnir sem urðu fyrir valinu fyrir sýningar Sigurðar Ámundasonar eru Neskaupstaður, Eskifjörður og Breiðdalsvík á Austfjörðum (4. – 26 október 2025) og Seltjarnarnes á höfuðborgarsvæðinu (8. – 30. nóvember 2025). Við val á sýningarstöðum nýtur listamaðurinn og safnið dyggrar aðstoðar frá ýmsum aðilum þ.m.t. aðildarfélögum ASÍ á viðkomandi svæði, sveitarfélögum, menningarmiðstöðvum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Samhliða sýningunum eru haldin myndlistarnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni og gerðar stuttmyndir fyrir heimasíðu safnsins.

Listráð Listasafns ASÍ skipa Daníel Björnsson og Dorothée Kirch ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur safnstjóra. Sýningarstjóri sýninga Sigurðar Ámundasonar ÚTHVERFAVIRKI er Elísabet Gunnarsdóttir.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page