top of page

Samtal um skáldskap og myndlist: Joan Jonas og Ragnar Kjartansson

508A4884.JPG

miðvikudagur, 10. september 2025

Samtal um skáldskap og myndlist: Joan Jonas og Ragnar Kjartansson

Í tilefni sýningar Ragnars Kjartanssonar á verkinu Heimsljós í Listasafni Reykjavíkur og 70 ára afmælis Nóbelsverðlauna Halldórs Laxness, bjóða Listasafn Reykjavíkur og Gljúfrasteinn til einstaks viðburðar fimmtudaginn 11. september kl. 17 í Hafnarhúsi þar sem myndlist og bókmenntir mætast. Viðburðurinn fer fram á ensku.

Listamennirnir Joan Jonas og Ragnar Kjartansson ræða við Markús Þór Andrésson, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, um hvernig skáldverk Halldórs Laxness hafa veitt þeim innblástur í eigin listsköpun. Joan hefur sótt í Kristnihald undir Jökli og Ragnar í Heimsljós. Í samtalinu verður velt upp spurningum um framhaldslíf bókmennta í myndlist: Hvað í verkum Laxness býður upp á slíka umbreytingu?

Um þátttakendur:

Joan Jonas (f. 1936) er bandarísk myndlistarkona og frumkvöðull í gjörninga- og vídeólist. Hún hefur haft djúpstæð áhrif á þróun samtímalistar frá sjöunda áratugnum og er þekkt fyrir verk sem blanda saman hreyfingu, hljóði, texta og mynd. Hún hefur sýnt víða um heim, m.a. á Tate Modern, MoMA og Feneyjatvíæringnum, þar sem hún var fulltrúi Bandaríkjanna árið 2015. Joan er þegar komin til landsins og notar tímann til þess að taka upp nýtt efni og mun hún að öllum líkindum gefa fólki innsýn í þá vinnu í samtalinu.

Ragnar Kjartansson (f. 1976) er íslenskur myndlistarmaður sem vinnur með gjörninga, vídeó, málverk og tónlist. Verk hans einkennast af endurtekningu, húmor og tilfinningalegri dýpt, og vísa gjarnan í leiklist, tónlistarsögu og menningararf. Hann hefur sýnt á helstu listasöfnum heims og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2009.

Viðburðurinn er öllum opinn og er hluti af dagskrá sýningarinnar Heimsljós í Hafnarhúsi. Uppselt er í sæti á viðburðinn, gestum er velkomið að standa á meðan húsrúm leyfir.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page