Samtal listamanns og sýningarstjóra um sýninguna Rauður þráður
fimmtudagur, 16. febrúar 2023
Samtal listamanns og sýningarstjóra um sýninguna Rauður þráður
Hildur Hákonardóttir og Sigrún Inga Hrólfsdóttir sýningarstjóri eiga samtal um sýninguna Rauður þráður sunnudaginn 19. febrúar kl. 14.00.
Listakonan Hildur Hákonardóttir hefur á löngum starfsferli sínum tekið á málefnum samtíma síns og kynjapólitík og nýtt til þess fjölbreytta miðla, þó mest vefnað. Sýningin Rauður þráður veitir innsýn í feril Hildar og starfsaðferðir hennar í gegnum tíðina sem eru samofnar þeim málefnum sem eru efst á baugi í samtíma okkar, einkum umhverfis- og jafnréttismál.
Hildur lærði myndvefnað við Myndlista- og handíðaskólann 1964-68 og Edinburgh College of Art 1969. Henni þótti hún hafa lært fánýti þegar hún útskrifaðist úr listaskólanum árið 1969 en áttaði sig fljótlega á því að sú sem kann að vefa kann að skipuleggja fjöldahreyfingu.
Hún var ein af frumherjum Rauðsokkahreyfingarinnar sem olli straumhvörfum innan jafnréttisbaráttunnar á áttunda áratugnum. Rauðsokkur tóku þátt í pólitískri umræðu og stóðu fyrir útgáfu, gjörningum og öðrum aktívisma sem opnaði augu margra fyrir kúgun kvenna. Titill sýningarinnar er skírskotun til vefnaðar og textíls en líka til þess hvernig vefnaður er notaður sem myndlíking í tungumálinu. Rauður er litur byltingarinnar þó svo það sé ekki sagt berum orðum.