top of page

Samstarf Vinnuskólans og Listasafns Reykjavíkur - Höfuðskepnur

508A4884.JPG

fimmtudagur, 26. júní 2025

Samstarf Vinnuskólans og Listasafns Reykjavíkur - Höfuðskepnur

Í sumar taka Listasafn Reykjavíkur og Vinnuskóli Reykjavíkur höndum saman um skapandi fræðsluverkefni fyrir ungmenni í tengslum við sýninguna Höfuðskepnur í Hafnarhúsi. Ungmennin voru að ljúka 10. bekk.
Verkefnið er hluti af stærra evrópsku samstarfi innan rammans um Loftslagsborgir Evrópu (European Climate Cities), þar sem Reykjavíkurborg tekur þátt ásamt borgunum Ósló í Noregi og Cluj-Napoca í Rúmeníu.

Markmiðið með verkefninu er að hvetja ungt fólk til vitundar, umræðu og ígrundunar um loftslagsmál með myndlist sem leiðarljósi – bæði í gegnum listupplifun og eigin listsköpun.

Alla virka daga í sumar mun einn hópur ungmenna úr Vinnuskólanum heimsækja Hafnarhús þar sem þau njóta leiðsagnar um sýninguna Höfuðskepnur, taka þátt í skapandi vinnustofum og eiga í lifandi samræðum um umhverfi, náttúru og framtíð. Kennarar námskeiðsins eru Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson og Erna Kanema Mashinkila.

Sýningin Höfuðskepnur, sem skipar lykilhlutverk í heimsókninni, sýnir verk eftir sex þekkta listamenn: Alessu Brossmer, Hrafnkel Sigurðsson, Jóhönnu Bogadóttur, Rögnu Róbertsdóttur, Rúrí og Þorbjörgu Jónsdóttur. Öll fjalla verkin á ólíkan hátt um náttúruna og tengsl mannsins við jörðina, og skapa þannig öflugan umræðugrundvöll fyrir ungmennin.

Verkefninu lýkur með sýningu á afrakstri vinnunnar í fjölnotasal Hafnarhúss á Menningarnótt í ágúst. Þar fá gestir tækifæri til að sjá hvernig hugmyndir, spurningar og viðbrögð ungmennanna birtast í fjölbreyttum listaverkum sem þau hafa skapað yfir sumarið.

Á myndinni er fyrsti hópurinn sem kom til starfa í Listasafni Reykjavíkur í vikunni.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page